Sveitarfélagið Árborg
Sveitarfélagið Árborg varð til árið 1998, við sameiningu Selfosskaupstaðar, Eyrabakkahrepps, Stokkseyrarhrepps og Sandvíkurhrepps. Íbúar eru 7800. Flatarmál Árborgar er 160 km2. Svæðið býður upp á fjölbreytni í landslagi, fjallasýn, fagra náttúru, einstakt fuglalíf og fjöru. Afþreying er margvísleg, fjöldi veitinga- og kaffihúsa, sundlaugar, listagallerý, söfn og golfvöllur.
Selfoss
Selfoss stendur við Ölfusárbrú og er stærsti þéttbýlisstaður á Suðurlandi, miðstöð verslunar, þjónustu og iðnaðar. Gestir geta valið milli veitingastaða og kaffihúsa, fengið sér sundsprett eða farið í golf. Fjöldi gistimöguleika og tjaldstæði eru í boði og úrval verslana. Í Hellisskógi við Selfoss er hægt að fara í stuttar gönguferðir með útsýni yfir Ölfusá og 9 holu golfvöllinn.
Eyrarbakki
Eyrarbakki er vinalegt þorp sem áður var helsti verslunarstaður á Suðurlandi. Fjöldi húsa er frá því um aldamótin 1900. Gaman er að ganga um götur á Eyrarbakka því sögulegur andi svífur yfir bænum á meðan brimið ber ströndina sem er einstaklega stórbrotin. Húsið á Eyrarbakka er eitt elsta hús landsins, þar er nú Byggðasafn Árnesinga. Í Sjóminjasafninu er teinæringurinn Farsæll merkastur gripa. Konubókastofan er bókasafn þar sem hægt er að fræðast um íslenska kvenrithöfunda og skoða verk þeirra. Möguleiki er á gistingu í þorpinu og þar er tjaldstæði, veitingahús og verslun er fyrir þá sem vilja. Fuglafriðlandið við Eyrarbakka er varpstaður votlendisfugla, tilvalinn til fuglaskoðunar og er á alþjóðlegum lista yfir mikilvæg votlendissvæði.
Á Menningar Stað er hægt að finna upplýsingar fyrir ferðamenn.
Meiri upplýsingar um Eyrarbakka er hægt að finna á vefsíðunni Eyrarbakki.is.
Stokkseyri
Stokkseyri er notalegt þorp sem er þekkt fyrir fuglalíf og stórbrotna og fagra fjöru við enda Þjórsárhrauns þar sem skiptast á sker, flúðir, lón og rásir. Þar er öflugt lista- og menningarlíf, vinnustofur, gallerý og söfn. Þar má finna drauga, álfa og norðurljós, uppstoppuð dýr, sem og kajakaferðir á Dælum eða sjó. Verslun, veitingahús og gisting í boði.
Þuríðarbúð er endurgerð sjóbúð sem lýsir vel aðbúnaði verbúðafólks á árum áður. Austan við Stokkseyri er Knarrarósviti en stíll vitans er athyglisverð blanda af fúnkis og art nouveau stefnum í arkitektúr.
Meiri upplýsingar um Stokkseyri er hægt að finna á vefsíðunni stokkseyri.is
Upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn er staðsett í anddyri Hótel Selfoss og á heimasíðu Árborgar er hægt að nálgast upplýsingar um ýmsilegt tengt ferðaþjónustu á svæðinu.