top of page

Flóahreppur

Flóahreppur er hérað á Suðurlandi og nær yfir austanverðan flóann sem liggur milli laxveiðiánna Hvítár og Þjórsár. Svæðið er sögulegt og náttúran skartar fjölskrúðugu gróðurfari og miklu fuglalífi. Sveitarfélagið Flóahreppur samanstendur af þremur hreppum, Hraungerðis-, Gaulverjabæjar- og Villingarholtshreppi, er um 290 km² á stærð og þar búa 640 manns. Frá Þjórsárveri má sjá Þórisjökul í norðri og Vestmannaeyjar í suðri, til Þjórsár og Fagradalsfjalls á Reykjanesi í vestri og til Mýrdalsjökuls í austri. Á milli er má sjá Selvogsheiði, Skálafell, Ingólfsfjall, Búrfell, Kálfstinda, Hlöðufell, Hestfjall, Vörðufell, Heklu, Tindfjöll, Þríhyrning, Eyjafjallajökul og Seljalandsmúla.

 

 

 

Urriðafoss er í Þjórsá í Flóahreppi. Þjórsárhraunið liggur undir stærstum hluta Flóans. Það telst vera mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni í einu gosi frá því að ísöld lauk og kom upp í eldgosi austan Þórisvatns fyrir um 8.700 árum. Gossprungan var 20-30 km stór en úr henni kom upp gífurlegt magn hrauns, eða allt að 30 km³. Hraunið rann yfir Skeið, Flóa og í sjó framundan Stokkseyri og Eyrarbakka, um 140 km frá eldstöðvunum.

 

 

Flóahreppur er lifandi samfélag. Þar hefur menning verið samofin mannlífi frá örófi alda bæði í handverki og verslun og í gegnum tíðina hefur svæðið verið ríkt af hugvits- og hagleiksfólki. Má þar nefna Flóaáveituna frá 1922 sem var mikið stórvirki á sínum tíma og náði yfir 12 þúsund hektara land. Með henni urðu mikil umskipti í búskap og atvinnuháttum í Flóanum. Landbúnaður er helsta atvinnugreinin í sveitarfélaginu en ferðaþjónustan fer stöðugt vaxandi. Ýmislegt má finna sér til afþreyingar, söfn og handverkshús, sveitabúð, ferðamannafjárhús og sitthvað fleira. Þjóðtrúin lifir í örnefnum og sögnum. Ein af Íslendingasögunum, „Flóamanna saga“ varðveitir minningu svæðisins sem einnig er paradís fyrir fuglalífs- og náttúruunnendur. 

 

 

bottom of page