top of page

Ölfus

 

Sveitarfélagið Ölfus er vestast í Árnessýslu.  Þorlákshöfn er þéttbýlisstaður sveitarfélagsins. Nafn sitt dregur Þorlákshöfn af Þorláki helga Skálholtsbiskupi (1133-1193) og fer tvennum sögum af tilkomu nafnsins. Önnur sagan segir að staðurinn hafi fengið þetta nafn eftir að Þorlákur biskup steig þar á land þegar hann kom frá biskupsvígslu árið 1178. Hin sagan segir að eigandi jarðarinnar hafi í sjávarháska heitið á Þorlák helga sér til liðsinnis og svo gefið Skálholti jörðina. Talið er að áður hafi jörðin heitið Elliðahöfn.

 

Ölfusið er kjörið til útivistar. Landslagið er mjög fjölbreytt; fjalllendi inn til landsins þar sem Hengilinn ber hæst, fallegt hraunlendi, svört sandströnd og bjargið vestan Þorlákshafnar.

 

Orkuveita Reykjavíkur hefur lagt gönguleiðir um Hengilssvæðið og er hægt að nálgast gönguleiðakort á upplýsingamiðstöðvum á svæðinu. Þá hefur Ferðamálafélag Ölfuss gefið út kort yfir gönguleiðir í nágrenni Þorlákshafnar sem einnig er hægt að nálgast á upplýsingarmiðstöðvum.

 

bottom of page