top of page

Prentsögusetur

Nú um helgina var haldinn stofnfundur Prentsögusafns. Við óskum aðstandendum til hamingju með áfangann.

Morgunblaðið birti þessa frétt á vef sínum:

Gamall draumur verður að veruleika

mbl.is/Kristján Kristjánsson

„Þetta er gamall draumur og menn sýna þessu mikinn áhuga,“ segir Haukur Már Haraldsson, sem er í undirbúningshópi fyrir stofnun Prentsöguseturs, sem nú er að verða að veruleika. Haldinn verður stofnfundur Prentsögusetursins kl. 13 í dag í fundarsal Landsbókasafns í Þjóðarbókhlöðunni.

Hópur áhugafólks hefur undanfarin misseri kannað möguleika á að setja á stofn safn eða setur til að halda á lofti þróun prentlistar á Íslandi, frá stofnun prentsmiðjunnar á Hólum í Hjaltadal fyrir miðja sextándu öld til dagsins í dag. Á kynningarsíðu hafa nú liðlega 150 einstaklingar lýst áhuga sínum á þessu verkefni.

Starf þessa hóps hefur nú leitt til þess að talið er tímabært að stofna formlega Prentsögusetur, sem ætlað er að gera skil þróun í setningu, skeytingu, prentun og bókbandi, þ.e.a.s. prentverki og bókagerð. Haukur Már segir að nú sé búið að útvega húsnæði fyrir Prentsögusetrið á Eyrarbakka, í gamla frystihúsinu og verður setrið hluti af annarri starfsemi. Þar er nú í gangi uppbygging húsnæðisins fyrir fjölbreytta starfsemi, sem er ekki síst miðuð við ferðamenn.

Á Haukur Már von á að þar geti allt verið tilbúið eftir eitt og hálft til tvö ár. Væntanlegt Prentsögusetur verði þannig hluti af lifandi og ferðamannamiðaðri starfsemi, í samvinnu við verkefnið Bókabæirnir austan fjalls og aðra starfsemi.


Merkimiðar
No tags yet.
bottom of page