top of page

Umkringd dreka- og töframeisturum

Það er ágætis veður þegar ég legg bílnum fyrir utan Barnaskólann á Stokkseyri. Það er snemma morguns og mér sýnist vorið sem betur fer vera á næsta leiti. För minni er heitið á skólabókasafnið þar sem ég hef mælt mér mót við Hafdísi Sigurjónsdóttur, bókavörð. Hún hefur verið með virkilega skemmtilegt lestrarverkefni í gangi í vetur sem hefur slegið rækilega í gegn. Við í Bókabæjunum austanfjallls höfðum frétt af þessu frábæra framtaki og okkur langaði að vita meira.

Mikill metnaður og vinna að baki verkefninu

Hafdís tekur glaðlega á móti mér og það er bjart yfir henni. Stuttu eftir að ég hef fengið mér sæti við afgreiðsluborðið hjá henni kemur ung dama inn til að skila tveimur bókum. Hafdís flettir í möppu sem liggur á borðinu og krossar við einhvern lista af því er virðist, sem ég sé reyndar ekki almennilega. Ég verð svolítið forvitin þar sem óvenjulegt er að sjá penna og blað í skráningar í stað tölvunnar. Þegar leið á heimsóknina, átti ég síðan eftir að fá betri útskýringu á blöðunum í möppunni.

Hafdís hefur unnið frábært starf í barnabókasafninu og það er greinilegt að hún hefur lagt mikinn metnað og vinnu í verkefnið. En það gengur út á að auka lestur barna þar sem þau vinna sig upp í svokölluðum gráðum. Til þess að verða Drekameistari þá byrja börnin á því að lesa ákveðin fjölda bóka af fyrirfram ákveðnum lista eins og sjá má hér að neðan. En bækurnar fjalla, eins og nafnið gefur til kynna, um dreka og/eða um heim þar sem þeir koma fyrir.

Hér má sjá listann sem börnin þurfa klára til þess að ná fyrstu gráðu

Léttasta gráðan er semsagt nr. 1 en erfiðasta gráðan er nr. 5. Börnin fá svo alltaf fallegt viðurkenningarskjal þegar þau ná hverri gráðu fyrir sig. Hafdís skapar enn meiri spennu og gleði hjá börnunum með því að fara í skólastofurnar á kennslutíma og útdeila skjölunum til barnanna. Þannig vekur verkefnið eftirvæntingu, stolt og meiri metnaður vaknar hjá þeim til þess að ná fleiri gráðum. Þau vinna sig semsagt upp í fimmtu gráðu sem er erfiðust. Á listanum yfir þá gráðu er til dæmis að að finna Hringadróttinssögu og Eragon bækurnar. Það eru ekki margir sem náð hafa þessari gráðu en Hafdís sýnir mér nöfn þeirra á glerveggnum fyrir ofan Drekameistarastandinn. Þau sem ná alla leið fá nefnilega nöfnin sín upp á vegginn auk þess sem þau fá fallegt skjal sem segir að þau séu orðin alvöru Drekameistari. Og það er ekkert lítið sem börnin eru stolt af afreki sínu.

Verkefnið vaxið og dafnað í vetur

Við hlið Drekameistarastandsins er svo að finna tvo aðra standa. Þeir eru fyrir Töframeisatara og svo Dýrameistara. Hafdís segir að þetta hafi gefist svo vel að á endanum hafi hún bætt við Töframeistaranum. „Er þar um það sama að ræða, nema bara bækur þar sem miklir töfrar koma fyrir,“ bætir hún við. Og nú er hún semsagt nýbúin að setja upp enn eina viðbótina sem eru Dýrasögur.

Hafdís merkir bækurnar sérstaklega fyrir hvern flokk. Hér má sjá hvernig bækurnar eru merktar í dýraflokknum

„Börnin kalla eftir þessu sjálf og eru mjög dugleg við að koma með hugmyndir til mín“, segir Hafdís og sýnir mér kassa á gólfinu bakvið afgreiðsluborðið með alls kyns bókum; þarna er til dæmis að finna íþróttabækur sem verða mögulega notaðar í Ólympíumeistaragráður, draugasögur o.sfrv. Það er því ljóst að Hafdís hefur í nógu að snúast í kringum verkefnið, enda hefur það vaxið og dafnað alveg frá því að hún fór fyrst af stað með það í vetur.

Ég geng með Hafdísi um bókasafnið og fæ að skoða ýmsar hugmyndir og verkefni. Þar á meðal fæ ég að sjá blaðið sem hún merkti við þegar stúlkan skilaði bókunum. En það er blað sem merkt er við fyrir hvert barn sem tekur þátt í lestrarverkefninu. Þetta er allt vel skipulagt í möppunni og greinlegt að hér hefur mikil og vönduð vinna farið fram. Ég verð að segja að ég er ansi upprifin og á erfitt með að hætta að spyrja, skoða og taka myndir. Hafdís sýnir mér meðal annars tölur yfir útlán vetrarins miðað við fyrri vetur og það hefur orðið sjáanleg aukning í útláni bóka eftir að verkefninu var hrundið af stað.

Hafdís sýnir mér listana sem börnin nota til þess að ná gráðunum

Fleiri skólar eru með verkefnið í gangi og Hafdís sýnir mér líka upprunalega útlitið á verkefninu en það kom upphaflega frá Vigni L. Jónssyni í Laugarnesskóla í Reykjavík. Hún hefur síðan þróað það áfram og lagað það að sínu bókasafni.

Ég fer frá Barnaskólanum í Stokkseyri fullviss um að lestur barna sé sko sannarlega ekki að deyja út. Á meðan við höfum svona kröftugt og skapandi fólk í skólanum, þá er alveg örugglega ekkert að óttast.

Merkimiðar
No tags yet.
bottom of page