top of page

Lestrarhestur vikunnar er Iðunn Rúnarsdóttir


Lestrarhestur vikunnar er Iðunn Rúnarsdóttir. Hún útskrifaðist frá Fjölbrautarskóla Suðurlands síðastliðið vor. Hún er núna nemandi við Hústjórnarskólann í Reykjavík og verður það þessa önn. Eftir það tekur óvissan við.

Á náttborði Iðunnar liggja tvær bækur þessa stundina og báðar eru þær ókláraðar. Önnur er bókin "Lolita" eftir Vladimir Nabokov og hin er "Eyðieyjan" eða "Pappan och havet" eftir Tove Jansson. Þetta eru mjög ólíkar sögur. Lolita fjallar um óeðlilegt ástarsamband mjög ungrar stúlku og eldri manns. Hún er grípandi og óvenjuleg en líka verulega óhugguleg. Eyðieyjan er múmínbók. Í henni flytur fjölskyldan á eyðieyju og lendir í ýmsum ævintýrum. Bókin er fyndin og full af skemmtilegum pælingum og hugmyndum.

Iðunn hefur gaman af ýmiskonar bókum en skáldsögur höfða best til hennar og þá helst með smá ævintýrakeim. Í þeim getur allt gerst og maður veit aldrei við hverju maður má búast. Margar eftirminnilegar bækur koma til greina sem eftirminnilegar bækur. Henni dettur helst í hug Eva Luna eftir Isabel Allende. Sú bók er mikið ævintýri og alvarleg skáldsaga í senn.

Skilaboð til annarra lestrarhesta: Búið ykkur til tíma til að lesa!

Við þökkum Iðunni kærlega fyrir að gefa okkur innsýn í lestrarheim sinn og munum svo sannarlega búa okkur til tíma til að lesa.

Merkimiðar
No tags yet.
bottom of page