Áður en daginn tekur að lengja er ekki seinna vænna að efna til glæpasagnahátíðar. Janúar heitir nú JaNoir hjá Bókasafni Árborgar, sem býður til Glæpasagnahátíðar 16.janúar (réttara sagt, janoir).

Öll tilnefnd til Blóðdropans
Höfundar þeir sem tilnefndir eru til Blóðdropans, íslensku glæpasagnaverðlaunanna, troða upp á hátíðinni. Fram koma Eva Björg Ægisdóttir, Óskar Guðmundsson, Ragnheiður Gestsdóttir og Steindór Ívarsson. Ævar Örn Jósepsson kemur einnig fyrir hönd Hins íslenska glæpasagnafélags sem hátíðin er haldin í samstarfi við. Gestum er boðið að dreypa á veigum og njóta veislufanga í boði hússins á þessu myrka janúarkvöldi.
Hvað er þetta Noir?
Noir er franska og merkir svartur. Það er borið fram eins og núar og því er þetta sérlega skemmtilegur orðaleikur sem Bókasafn Árborgar hefur brugðið á, í nafngift hátíðarinnar: JaNoir. Í bókmenntalegu samhengi hefur ákveðin undirgrein glæpasagna verið kennd við þetta orð og síðustu ár hefur svokallað Nordic Noir náð gífurlegum vinsældum. Í Nordic Noir er aðalpersónan oft lögreglumaður sem glímir við persónulega bresti á meðan hann leysir glæp, í grámyglulegu skandinavísku borgarlandslagi.
Það er nóg á döfinni á yfirráðasvæði Bókabæjanna næstu misserin, svo smellið nú Like á facebook síðuna og fylgist með. Sjáumst á Glæpasagnahátíðinni, 16.janúar klukkan 19:30.
Comments