top of page
Search

Ljóðastund með Arnari

Bókabæirnir austanfjalls stóðu fyrir ljóðastund með Arnari Jónssyni leikara í Leikhúsinu á Selfossi þann átjánda maí síðastliðinn.


Ljóða-óð þjóð

Það er ánægjulegt að sjá að ljóðaviðburðir laða að gesti jafnvel þegar sumarsólin skín skært utandyra. Ljóð eru líka svo frábært fyrirbæri. Þau eru svo miðlæg og nálægt okkur mannfólkinu. Beintengd í tungumálið hvort sem samið er undir krefjandi bragreglum eða undir frjálsara formi. Með hliðsjón af blómlegri útgáfu ljóðabóka á Íslandi má jafnvel ganga svo langt að segja að Íslendingar séu ljóða-óð þjóð.


Vakti upp æskuminningar

Þó var nú ekki æði fyrir að fara á ljóðastundinni með Arnari. Gestir báru sólskiniði með sér inn fallegan sal Leikhússins á Selfossi. Þar tók Arnar við gestunum og magnaði seið ljóðanna með sinni einstöku túlkun og rödd sem svo margir þekkja. Gestum varð meira að segja að orði eftir upplesturinn að upplifunin hafi minnt á lestur foreldra sinna í æsku.


Ljóðaslamm í lokin

Með góðum upplestri á ljóðum næst nefnilega alveg magnaður galdur sem í senn opnar ljóðin og kynnir fyrir nýjum lesendum og vekur hjá okkur á sama tíma minningar og myndir. Sonur Arnars, Jón Magnús meistari ljóðaslammsins átti svo mjög skemmtilegt innslag með ljóðaslammi í lok upplestrarins.


Fleira framundan

Fleiri viðburðir eru á döfinni hjá Bókabæjunum í sumar og fram á haust. Fornbókamarkaður verður á Stokkseyri á Bryggjuhátíð og svo verður Haustgildi fyrstu helgina í september þar sem fjölmargir höfundar lesa úr verkum sínum. Sérstök dagskrá verður líka um ljóðabókina Stokkseyri eftir Ísak Harðarsson.




 
 
 

Comments


Stjórn Bókabæjanna austanfjalls

Pétur Már Guðmundsson - formaður

Jónína Sigurjónsdóttir

Svanhvít Hermannsdóttir

Vala Hauksdóttir

Bjarni Harðarson

Við sem stöndum að Bókabæjunum austanfjalls erum alls konar fólk á öllum aldri. Við eigum það sameiginlegt að vilja efla bókamenningu á Suðurlandi með fjölbreyttum viðburðum, umfjöllunum og uppákomum. Hafðu samband ef þú ert með hugmynd, eða vilt taka þátt í starfinu. Við tökum öllum fagnandi.

bottom of page