top of page

Lestrarhestur með ný lesgleraugu

Lestrarhestur vikunnar er Sigmundur Sigurgeirsson ritstjóri Sunnlenska fréttablaðsins sem er þessa dagana að lesa Inferno eftir Dan Brown. Eins og svo oft kýs Sigmundur að lesa enskar bækur en þessi ævintýralega saga er raunar til á íslensku líka. Hún kom út hjá Bjarti 2013 undir sama nafni, Inferno sem merkir hreinsunareldur eða helvíti.

Hér er sagt frá táknfræði og margskonar baráttu söguhetjunnar við kaþólsku kirkjuna. Afar spennandi lesning.

Aðspurður um jólabækurnar játar Sigmundur að hafa komist óvenjulítið í þær kræsingar. Ástæðan er vaxandi sjónskekkja sem olli því að hann varð að fá ný gleraugu og meðan beðið var eftir þeim var lítið lesið.

„Konan mín var að lesa DNA eftir Yrsu Sigurðardóttur, en nei, það varð ekkert úr því að hún læsi hana upphátt fyrir mig.“

En nú eru lesgleraugun semsagt komin og eru óspart notuð. En hvaða bók stendur uppúr á síðasta ári?

„Það er amerísk fræðibók sem heitir einfaldlega History of law eða Saga laganna og fjallar um uppruna og eðli lagasetningar. Bæði almennra laga og æðri laga eins og stjórnlaga og stjórnarskrár. Hér er líka skýrt hvernig lögin verða til, fyrst sem hefðir og almennar reglur en enda svo á pappír eftir því sem fjölgar í hópnum og samfélagið þróast. Mjög merkileg og góð lesning.“

Merkimiðar
No tags yet.
bottom of page