top of page

Velheppnuð Hátíðardagskrá Konubókastofunnar á Eyrarbakka

Sunnudaginn 22. mars var haldin Hátíðardagskrá Konubókastofunnar í Rauða húsinu á Eyrarbakka. Var dagskráin haldin í tilefni af því að á árinu eru 100 ár síðan konur fengu kosningarétt. Fallegt vorveður yljaði gestum og gangandi og var það vel við hæfi þar sem dagskráin var falleg, ljúf, fræðandi en líka kröftug og spennandi.

Margar mætar konur komu fram en það voru Hildur Hákonardóttir, Auður Styrkársdóttir, Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, Hallgerður Freyja Þorvaldsdóttir og Halldóra Íris Magnúsdóttir.

Auk þess kom Margrét Eir og söng nokkur ljúf lög enda áttu þau vel við í fallega vorveðrinu sem landsmenn fengu loksins að njóta.

Fyrir hlé:

Hildur Hákonardóttir mætti með hvannarstöng með sér og notaði hana á skemmtilegan hátt til að útskýra tímabilin í kvenfrelsisbaráttunni. Það var áhugaverð samlíking enda er Hildur gífurlega skemmtilegur sögumaður og afskaplega skemmtilegt, en umfram allt fræðandi, að hlusta á hana.

Auður Styrkársdóttir hélt þar á eftir mjög fræðandi erindi og sagði meðal annars frá því hversu áhyggjufullur Jón Magnússon hefði verið í upphafi tuttugustu aldar vegna þessarar skyndilegu aukningu á frelsi kvenna. Var jafnvel óttast að þær myndu hreinlega stofna kvennaflokk og bjóða sig fram til alþingis. Það gæti hreinlega bara verið ansi hættuleg! Tímarnir voru að sjálfsögðu aðrir, en engu að síður er eilítið skondið að rifja slíkt upp, enda brostu gestir að slíkum upprifjunum. Auður sagði einnig frá mjög spennandi dagskrá sem haldin verður á árinu vegna afmælisins og hvetjum við að sjálfsögðu alla sem áhuga hafa á að kíkja á vefsíðu afmælisdagráarinnar.

Eftir hlé

Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir kom fram og sagði frá lífi og störfum ýmissa kvenfrelsiskvenna, þar á meðal Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og Laufey Vilhjálmsdóttur. En þar sem Bryndhildur er bókmenntafræðingur að mennt sagði hún einnig frá lestrafélagi kvenna í Reykjavík sem stofnað var árið 1911, auk annarra áhugaverðra verkefna sem konurnar tóku sér fyrir hendur.

Námsmeyjarnar, Hallgerður Freyja Þorvaldsdóttir og Halldóra Íris Magnúsdóttir heilluðu áhorfendur mikið þar sem þær komu og sögðu frá því hvernig það er að vera ungar konur í dag. Það var virkilega gaman að heyra hversu marg hefur unnist og að ungu dömurnar líta virkilega bjartsýnar fram á veginn.

Dagskráin var því vel heppnuð og gestir fóru glaðir út úr Rauða húsinu og út í sólskinið sem beið þeirra.

Merkimiðar
No tags yet.
bottom of page