top of page

Bókin um risastóru peruna skemmtilegust

Patrekur Kári Friðriksson er hress strákur sem er í þriðja bekk í Vallarskóla á Selfossi. Hann verður níu ára í júní og hlakkar að sjálfsögðu mikið til. Patrekur var orðinn fluglæs sex ára gamall og hefur alltaf verið mikill lestrarhestur. Hann er áskrifandi af Andrésblaðinu sem hann fær í hverri viku og það klárar hann að lesa á mettíma.

Þegar Patrekur er spurður hvaða bók hann sé að lesa spyr hann á móti hvort það megi ekki örugglega vera bók sem hann er að lesa í skólanum. Jú, það er sko sannarlega í lagi. En hann er að lesa hvorki meira né minna en fimmtu bókina af Harry Potter.

Patrekur bendir á að hann væri eiginlega fyrir löngu búinn með hana ef lestrartíminn í skólanum væri aðeins lengri

En hvernig finnst þér bókin?

Hún er bara rosalega skemmtileg!

Finnst þér hún skemmtilegri en hinar Harry Potter bækurnar?

Nei, mér finnst þær eiginlega allar jafn skemmtilegar.

En þegar Patrekur er spurður hvaða bók honum finnist vera sú skemmtilegasta sem hann hafi lesið, þá þarf hann að hugsa sig svolítið vel um. Hann endar á því að fara inn í svefnherbergið sitt þar sem myndarleg bókahilla stendur, og þar finnur hann bókina sem hann heldur mest upp á. Hún heitir Ótrúleg saga um risastóra peru. Bókina fékk hann frá pabba sínum og heldur mikið upp á hana.

Patrekur kemur líka fram með risastóra Star Wars teiknimyndabók sem honum finnst mjög gaman að skoða í og sýnir nokkrar skemmtilegar teikningar í henni. Það er því nóg til af bókum sem Patreki Kára finnst gaman að og ljóst að hann er ekkert að fara að hætta í bráð.

Patrekur með Star Wars bókina sína og Bókina um risastóru peruna

Merkimiðar
No tags yet.
bottom of page