Endurnýjar kynnin við Sjálfstætt fólk
Lestrarhestur vikunnar er Lýður Pálsson, safnstjóri Byggðasafns Árnesinga. Náttborðið hjá safnstjóranum er sjaldnast tómt enda alltaf eitthvað bitastætt að finna þar. Við hjá Bókabæjunum austanfjalls höfðum samband við Lýð og spurðum hann hvaða lestrarefni væri efst á baugi þessa dagana.
„Undanfarnar vikur hef ég verið að lesa Fávitann eftir Fjodor Dostojevskí en hef ég nú gert smá hlé á lestri um þann merka fursta. Ætlunin er svo að taka upp þráðinn þegar öðrum lestri lýkur.“
Lýður ákvað í kjölfar þess að hann sá leikritið Sjálfstætt fólk að endurnýja kynni sín við þá bók.
„Gengur sá lestur vel og ýmislegt sem ég las sem unglingur orðið öðruvísi. Sjálfstætt fólk Halldórs Laxness fjallar um ansi einþykkan mann sem vill ekki vera undir öðrum kominn og verður að segjast eins og er að sagan er raunarleg á köflum.“
Aðspurður hvað sé besta bókin sem hann hefur lesið undanfarið segir Lýður að það sé bókin HHhH eftir franska rithöfundinn Laurent Binet.
„Bókin greinir frá atburðum í Prag þegar andspyrnuhreyfingin þar kom Reinhard Heydrich fyrir kattarnef en hann var einn af valdamestu nasistum Þýskalands. Sagan segir frá aðdragandanum og atburðinum sjálfum og eftirköstum þess að Heydrich var drepinn. Bókin hélt mér algjörlega við efnið og hún er mjög vel skipulögð og auðveld aflestrar.“
Lýður segir að þetta sé nú bara það sem hann er að lesa heima fyrir en hann þarf einnig að lesa mjög mikið vegna vinnu sinnar.
„Í vinnunni taka við annarskonar bókmenntir en Byggðasafn Árnesinga varðveitir gott bókasafn fræðirita sem nýtist í starfi. Þær þarf ég reglulega að grípa í vegna vinnunnar. Ég les mjög mikið af bókum og þegar erli dagsins er lokið þykir mér ekkert betra en að grípa í bók áður en Óli lokbrá tekur við.“