top of page

Klárar sjaldnast bækur

Hallur Karl Hinriksson listmálari er lestrarhestur vikunnar. Hann er búsettur í Árborg og hefur sýnt víða á stuttum ferli. Hann heldur úti síðu þar sem alltaf má fylgjast með og skoða nýjustu verkin hans á Facebook síðunni hans.

Við gefum Halli orðið: „Það skiptir mig talsverðu máli að hafa sæmilega bók á náttborðinu. Ég klára sjaldan bækur. Ég er ekki upptekinn af því að klára bók ef hún nær ekki að grípa mig, eða mér finnst hún leiðinleg. Ég skammast mín ekkert fyrir það. Það er mjög mikið til af bókum. Það er gaman að smakka og skoða allt sem kemur út, en fullkomlega ómögulegt að klára allt. Umberto Eco, sem er þekktastur hér á landi fyrir bók sína Nafn Rósarinnar, fékk eitt sinn gest í hús sitt sem varð tíðrætt um bókasafn Umbertos. Hefur þú í alvöru lesið ALLAR þessar bækur?“, spurði hann, og ekki nema von því það er víst talsvert til af bókum á því heimili. „Ertu vitlaus,“, svarar Umberto. „Ég hef ekki lesið nema brotabrot af þeim. Til hvers að eiga svona mikið af bókum ef maður hefur lesið þær allar?“ „Ég er með 14 bækur á náttborðinu mínu núna. Það eru litlir miðar inní þeim öllum svo ég geti fundið aftur hvar ég skildi við þær síðast. Sú bók sem ég byrjaði síðast á heitir Unseen Academics og er eftir Terry Pratchett, en hann skildi við jarðlífið nýlega og mér fannst tilvalið að líta aftur í bók úr hinum frábæra sagnabálki hans, Discworld. Ég mun ekki klára hana en það er gaman að blaða í prósanum hans Pratchett, frábær höfundur og listamaður á enska tungu.“

„Önnur bók sem vert er að minnast á úr hrúgunni er hin færeyska Ósögur af djöfulskap eftir Carl Jóhan Jensen. Hún er 930 blaðsíður og endar á setningunni „Og nú fyrst hefjast sögurnar.“ Það er náttúrulega galið verkefni fyrir mig að reyna að lesa þessa bók spjaldanna á milli en ég er viss um að þessi frábæri textasmiður sem Jensen er mun heilla marga í viðbót – því góð er bókin, leikur sér með tímaflakk og töfraraunsæi og inniheldur frábærar sögur af misgóðu fólki úr fortíðinni. En hún er of langdregin fyrir athyglisbrostna mig.“

Hallur Karl er einnig mjög heillaður af keltneskum hugarheim.

„Ég bjó lengi á Bretagne-skaganum í Frakklandi og þar eru elstu fjöll Evrópu löngu orðin að ávölum hlíðum. Í dalverpum, lautum og öðrum leynistöðum má finna uppreista heiðna steina. Þeir prýddu sjálfsagt áberandi staði víðar í fyrrndinni en nú eru komnar kirkjur uppá alla hólana. Les Celtes eftir Jean Markale er ein af bókunum á náttborðinu hjá mér en hún inniheldur greinagóða úttekt á helstu sögnum kelta. Nú er ekki margt vitað um þá en það litla sem varðveist hefur af ljóðlist og sögnum er auðvitað dásamlegt lesefni og gaman að upplifa hversu tengt þetta efni er okkar eigin sagnahefð og vísnagerð.

Því er það svo að þegar ég sá bókina Orkneyskar þjóðsögur sem Sæmundur gaf út í fyrra þá stökk ég til og las hana. Viti menn, ég kláraði hana og fannst hún alveg makalaust skemmtileg, þó ég megi til með að gagnrýna stirða þýðingu svolítið. En það er gaman að kynnast vættum sjávarins við Orkneyjarnar og heyra óminn úr veislum álfanna, þar sem tíminn líður miklu hægar en uppi á yfirborðinu þar sem mannfólkið stritar, gleymir og deyr.“

Hasarbókmenntir Lee Child lesast eins og bíómynd

„Ég má til með að ljúka upptalningunni á því að mæla með hasarbókmenntum Lee Child, en hann hefur fært okkur nútímaþjóðsögurnar af Jack Reacher. Allar bækurnar eru skemmtilegar og lesast eins og bíómynd og er tilvalið að háma þær í sig þegar maður vill eitthvað einfalt og skemmtilegt til að lesa og stytta sér stundir. Þetta eru einu bækurnar sem ég les í einum rykk. Get ekki lagt þær frá mér. Reacher þessi er fyrrverandi hermaður og hasarnagli sem ferðast um Bandaríkin og lúber ómenni og skíthæla sem vilja gera öðrum illt. Reacher þefar allstaðar uppi vandræði. Glæpamennirnir gera hverja tilraunina á fætur annari til að koma honum kattarnef en þeim verður aldrei kápan úr því klæðinu. Hann nefbrýtur flesta og kálar rest. Skemmtilegri lýsingar á slagsmálum er hvergi að finna. Það besta við þennan hasar er að hann er léttvægur og ólíkur skandinavíukrimmanum að því leyti að hann er minna upptekinn af raunsæinu.“ „Þetta er staðan á náttborðinu hjá mér um þessar mundir. Í blálokin vil ég minnast á tímaritið Stínu, en ég er áskrifandi að því og fæ þar fjölbreytta ljóðagerð og smásögur. Það er alltaf fullt af frábæru efni í Stínu. Það er gaman að lesa.“

Merkimiðar
No tags yet.
bottom of page