top of page

Kemur nánast á hverjum degi í bókasafnið

Sigurjón Erlingsson múrarameistari er lestrarhestur vikunnar. Sigurjón er orðinn 81 árs gamall en kemur nánast á hverjum degi á bókasafnið á Selfossi og er einn af uppáhalds viðskiptavinum bókasafnsvarðanna. Við hjá Bókabæjunum tókum Sigurjón tali og spurðum fyrst hvaða bækur hann væri með á náttborðinu núna?

Hér er Sigurjón með Heiðrúnu D. Eyvindardóttur, forstöðukonu Bókasafns Árborgar

„Það eru þrjár bækur þar núna; Gæðakonur eftir Steinunni Sigurðardóttur, Skagfirskar skemmtisögur nr. 4 og Tak hnakk þinn og hest – endurminningar Páls á Hjálmsstöðum. Sigurjón kveðst líka vera nýbúinn að lesa Ævisögu Jóns Steingrímssonar og Ferðasögu Eiríks á Brúnum."

„Ég hef einnig lesið Íslendingaspjall Halldórs Laxness og Í verum, ævisögu Theódórs Friðrikssonar margoft áður," bætir hann við.

Sigurjón er í miklu uppáhaldi hjá bókasafnsvörðunum í bókasafninu á Selfossi

Sigurjón les margskonar bækur og þegar kemur að því að velja bækur til að mæla með fyrir aðra lesendur þá er þetta listinn hans:

1. Fátækt fólk, Baráttan um brauðið og Fyrir sunnan, þriggja binda ævisaga Tryggva Emilssonar, sem var nýlega valin sem best ritaða ævisaga á Íslandi og því er Sigurjón alveg sammála.

2. Þyrnar, kvæðabók Þorsteins Erlingssonar en hann er ömmubróðir Sigurjóns.

3. Ævisaga séra Árna Þórarinssonar (6 bindi) eftir Þórberg Þórðarson

4. Sjálfstætt fólk eftir Halldórs Laxness

5. Íslandsklukkan eftir Halldór Laxness.

Við þökkum Sigurjóni kærlega fyrir að deila með okkur lestrinum sínu.

Merkimiðar
No tags yet.
bottom of page