top of page

Lestrarhestur vikunnar er Böðvar Dór Brynjarsson


Böðvar Dór Brynjarsson er lestrarhestur vikunnar. Hann er Selfyssingur og nýstúdent frá því í vor og stundar nú nám í Íþróttakennaraháskólanum á Laugavatni.

Á náttborði Böðvars Dórs liggur bókin Eragon 1 bókin í sem tilheyrir samnefndum bókaflokki. Hún er skrifuð af rithöfundinum Christoper Paolini sem var bara 15 ára þegar hann gaf hana út. Bókin fjallar um Eragon og Safíru drekann hans en sagan gerist í heimi sem nefnist Alegesía. Þar áður fyrr réðu drekariddarar ríkjum og gættu friðar í landinu. Því miður sveik einn úr þeirra eigin reglu þá alla en það var ungur riddari sem hét Galbatorix og drap næstum alla riddarana og lýsti sig konung Alegesíu. Mörgum árum eftir þessa atburði náði andspyrnuhreyfingin „Verðirnir“, sem berst á móti harðstjórn Galbatorix, að stela drekaeggi og fyrir tilviljun rataði eggið

til Eragon. Eggið klaktist út fyrir hann og gerði drekinn Safíra það að verkum að Eragon varð drekariddari og næstum eina vonin um að sigra Galbatorix. Þetta er í raun í stuttu máli það sem þessi bók fjallar um, barráttu Eragon og Safíru gegn Galbatorix.

Mér finnst allar bækurnar um Eragon alveg frábærar og þessi var engin undantekning, segir Böðvar, mér fannst hún bara svo spennandi að ég gat aldrei hætt að lesa hana fyrr en henni var lokið. Í fyrsta skiptið sem ég las hana eyddi ég meiri segja frímínútunum í grunnskóla í að lesa hana :)

Böðvari þykir mjög gaman að lesa bækur sem gerast í heimum þar sem takmörkin ná út fyrir raunveruleikann og fullt er af ævintýrum og spennu. Ævintýrabækur höfða helst til hans, sem gerast í heimum þar sem mikið er af hinu yfirnáttúrulega svo sem töfrum og allskonar furðulegum verum og sem innihalda ólíka kynþætti eins og dverga, álfa, orka og galdramenn. Bækur eins og Eragon, Harry Potter og bækurnar sem Tolkien hefur skrifað höfða mjög til hans. Kannski vegna þess að frásagnirnar eru svo framandi og skemmtilegar. Það styrkir mjög ímyndunaraflið að lesa þær og það er hægt að gera þessar bækur svo spennandi af því það sem gerist í þeim gerist ekki í raunverleikaheiminum sem við lifum í í dag.

Eftirminnileg bók sem Böðvar hefur lesið er bókin „Lord of the Rings Fellowship of the Ring“. Það sem gerir hana eftirminnilega er að hann sá kvikmyndina fyrst og las síðan bókina. Honum fannst bókin miklu betri en myndin og það virðist alltaf vera þannig með allar bækur því þó að kvikmyndin sé frábær þá var bókin enþá betri. Mjög eftirminnlegt móment þegar maður áttar sig fyrst á þessu.

Við þökkum Böðvari Dór kærlega fyrir að gefa okkur innsýn í áhugaverðan bókaheim sinn og förum örugglega eftir því góða ráði sem hann gefur okkur í lokin: Bara að halda áfram að lesa góðar bækur og hafa gaman af því !

Merkimiðar
No tags yet.
bottom of page