top of page

Skýrsla Bókabæjanna austanfjalls 2015

Skýrsla Bókabæjanna austanfjalls 2015

Bókabæirnir austanfjalls stuðla að því að gera bókum og bókmenningu hátt undir höfði í náinni samvinnu við íbúa svæðisins og vilja með því efla menningartengda ferðaþjónustu bæði fyrir íbúa og ferðamenn án ágengni á náttúru svæðisins og fyrir fyrirtæki sem hafa endurnýtingu og umhverfisvernd að leiðarljósi. Eitt af lykilhlutverkum bókabæja um heim allan hefur verið að skapa farveg fyrir notaðar bækur sem fólk vill losna við, hvort sem um er að ræða dánarbú, aflögð bókasöfn stofnana og fyrirtækja eða einfaldlega bókakassa sem falla til á heimilum við tiltektir. Með því að gera fólki kleift að láta bækur þessar renna til Bókabæjanna austanfjalls er lagður grunnur að markaðssetningu á svæðinu sem sérstöku bókahéraði. Slík ímynd er bæði jákvæð og verðmæt fyrir atvinnusköpun.

Bókabæirnir austanfjalls stefna að því að bækur verði sýnilegar á því svæði sem þeir ná yfir og m.a. hafa þeir eftirfarandi markmið:

  • Að halda bókmenntatengda viðburði reglulega á svæðinu.

  • Að vera í góðu samstarfi við menntastofnanir og fá þær til að standa að viðburðum tengdum lestri og bókmenntum með nemendum sínum og samstarfsfólki.

  • Að vinna með fyrirtækjum á svæðinu og efla bókmenntalegan áhuga þeirra.

  • Að auka þekkingu almennings á bókmenntalegum arfi svæðisins.

  • Að auka veg og virðingu bóka og bókmenningar á svæðinu.

  • Að kortleggja bókmenntatengda (viðburði) atburði, sögur og skáld á svæðinu.

Hvað hefur verið gert á árinu 2015

Bókabæirnir austanfjalls stofnuðu undirbúningshópa/vinnuhópa fyrir bókamarkað, kortagerð um bókmenntir á svæðinu og barnabókahátíð. Vel gekk að manna vinnuhóp fyrir bókamarkað, einnig vinnuhóp um barnabókahátíð og skiluðu þeir hópar góðri vinnu. Ekki hefur tekist að ná saman nógu mörgum til að koma kortagerðinni af stað. Bókabæirnir voru kynntir á fundum menningarnefnda í bæjarfélögunum 2014 og í kjölfarið voru kynningarfundir hjá hinum ýmsu félagasamtökum. Í október sl. kom 36 manna hópur frá Upplýsingu, Félagi bókasafns- og upplýsingafræða og hitti verkefnisstjóra bókabæjanna sem fór með þeim hringferð um svæðið og veitti leiðsögn. Það var stoppað á fimm stöðum í öllum sveitarfélögum Bókabæjanna austanfjalls og fékk hópurinn áhugaverða fyrirlestra á hverjum stað. Bókabæirnir fengu sent þakkarbréf stuttu seinna frá formanni Upplýsingar fyrir góðar móttökur og líklegt er að fólkið sem í rútunni var muni koma og heimsækja okkur aftur og taka þá kannski með vini sína og fjölskyldur. Í nóvember var haldið málþingið „Af hverju þarf ég að lesa?“ og var umræðuefnið barnabækur og læsi. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra ávarpaði þingið og voru fyrirlestrarnir fróðlegir og fjölbreyttir. Ekki er enn búið að ákveða hvað verður gert í desember en eitt er víst að fulltrúar Bókabæjanna austanfjalls verða sýnilegir þar sem bækur koma við sögu.

Bestu fréttirnar eru sennilega þær að Flóahreppur er orðinn aðili að Bókabæjunum austanfjalls og bjóðum við íbúa hans velkomna í hópinn.

Viðburðir og annað

Viðburðir hafa verið nokkrir á árinu og verður gerð grein fyrir þeim í næstu köflum fyrir neðan ásamt litlum sigrum sem áunnust á tímabilinu.

Bókamarkaður í Hveragerði

Settur var upp bókamarkaður Bókabæjanna austanfjalls í húsnæði Leikfélags Hveragerðis að Austurmörk 23, Hveragerði. Markaðurinn opnaði föstudaginn 26. júní og var opinn allar helgar yfir sumarið, frá föstudegi til sunnudags kl. 12-18, síðasta opnunarhelgin var 14.-16. ágúst á bæjarhátíðinni Blómstrandi dögum. Alls var markaðurinn opinn 8 helgar. Launaður starfsmaður sá um bókamarkaðinn að mestu. Góður rómur var gerður að bókamarkaðnum og viðtökur voru framar vonum. Talsverð aðsókn var og sala þokkaleg og margir spurðu hvort þetta yrði ekki örugglega endurtekið næsta sumar. Viðburðir voru flestar helgarnar, bæði til að kynna bækur og til að skemmta þeim sem komu á markaðinn, uppboð, söngur, upplestur, garðyrkjusýning og fleira. Markaðurinn var samt rekinn með dálitlu tapi.

Barnabókahátíð á Selfossi

Barnabókahátíð var haldin í Bókabæjunum austanfjalls 18. og 19. september og byrjaði með upplestri í almenningsbókasöfnum bókabæjanna föstudaginn 18. september. Sigrún Eldjárn rithöfundur kynnti bækur sínar og las upp úr nýjustu bók sinni, Leyniturninn á Skuggaskeri, sem þá var enn ekki komin út.

Kl. 14:00 á Bókasafninu í Hveragerði

Kl. 15:00 á Bæjarbókasafni Ölfuss í Þorlákshöfn

Kl. 16:00 á Bókasafni Árborgar Selfossi

Þann 19. september var hátíðin í Árborg og hittust hátíðargestir klukkan 13:00 við Bókasafn Árborgar. Þaðan fór skrúðganga sem stjórnað var af Skátafélaginu Fossbúum yfir í Fjölbrautaskóla Suðurlands að Tryggvagötu 25 þar sem aðalhátíðin var. Allir voru hvattir til að mæta í gervi uppáhalds sögupersóna sinna. Hátíðin var styrkt af Menningarsjóði Suðurlands. Leikfélag Selfoss sýndi leikþáttinn Gilitrutt, Margrét Eir söng fyrir börnin og Lalli töframaður var með töfrabrögð og blöðrublástur. Á barnabókahátíðinni var börnum boðið að taka virkan þátt í föndursmiðjum sem báru yfirskriftina: Bók verður til, Lestrarhestahornið og Listaverk úr bókum sem enginn vill eiga. Þeim var ætlað að skapa góðar minningar um bækur og bókalestur og hvetja til umhverfisvænna viðhorfa, nýtni og skapandi hugsunar. Þátttaka í hátíðahöldunum var góð og fóru bæði þátttakendur og umsjónarmenn glaðir og ánægðir heim.

Málþingið í Þorlákshöfn

Bókabæirnir austanfjalls vildu auka hróður barnabókarinnar og vekja athygli á mikilvægi barnabóka í eflingu læsis. Því stóðu þeir fyrir málþinginu „Af hverju þarf ég að lesa?“ og var það sjálfstætt framhald Barnabókahátíðar Bókabæjanna austanfjalls sem haldin var á Selfossi í september 2015. Inntak málþings var barnabókmenntir og læsi - hlutverk barnabókarinnar í eflingu læsis. Spurningunum „af hverju erum við að þessu?“ og „af hverju þurfa börn að lesa?“ var leitast við að svara frá hinum ýmsu sjónarhornum. Ólína Þorleifsdóttir kennsluráðgjafi skólaþjónustu Árnesþings stjórnaði málþinginu og var dagskráin eftirfarandi:

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra setti málþingið

Margrét Tryggvadóttir bókmenntafræðingur og rithöfundur var með fyrirlesturinn „Skipta barnabækur máli?

Gerður Kristný rithöfundur og ljóðskáld var með fyrirlesturinn „Bækur breyta heiminum“

Lára Aðalsteinsdóttir verkefnisstjóri Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO var með fyrirlesturinn „Komdu með á hugarflug

Andri Snær Magnason rithöfundur sagði nokkur vel valin orð um barna og unglingabækur og velti fyrir sér hvað má segja við börn og hvað má vera í námsbókum.

Annað

  • Bókabæirnir austanfjalls voru milligöngumenn um aðstöðu fyrir prentminjasafn á Eyrarbakka. Í framhaldi af stofnun Bókabæjanna austanfjalls 2014 og umræðna um hvað væri hægt að gera í bókabæjum setti hópur áhugamanna um Prentsögusetur sig í samband og vinnur nú að því að koma því á laggirnar.

  • Bókabæirnir austanfjalls fengu styrki frá sveitarfélögunum og réðu starfsmann í hálft starf í byrjun mars 2015. Starfsmaðurinn hefur haft aðsetur hjá SASS að Austurvegi 56. Starfsmaðurinn sem ráðinn var í mars hætti í sumar og hóf nýr starfsmaður störf þann á haustdögum.

  • Bókabæirnir urðu á árinu 2015 félagar í IOB sem eru alþjóðleg samtök bókabæja í heiminum. International Organisation of Book Towns. Sjá: http://www.booktown.net/

Sett var upp heimasíðan bokabaeir.is til að kynna Bókabæina austanfjalls. Þeir eru einnig á Twitter, Instagram og Facebook.

  • Bókabæirnir hafa ekki hentuga aðstöðu fyrir starfsemi sína en þeim hefur m.a. verið boðið að taka við og halda úti sýningunni „Handritin heim“ sem er í eigu Byggðasafns Árnesinga og var sýnd þar árið 2013. Það væri áhugavert verkefni fyrir bókabæina að koma henni á laggirnar og halda úti í samvinnu við grunnskólana víðsvegar og bjóða þeim að koma í heimsókn og fræðast um handritin í tengslum við samfélagsfræðinám og fleira. Einnig hefur verið sýndur áhugi fyrir endurnýtingu gamalla bóka og sköpunar og því væri áhugavert að skapa aðstöðu til föndurs sem miðar að umhverfisvænni nýtingu gamalla bóka og hugmyndir eru uppi um að vera í samvinnu við hina ýmsu listamenn á svæðinu og félagsmiðstöðvarnar. Í dag er hægt að taka við bókum bókabæjanna en þær eru geymdar í bráðabirgðageymsluhúsnæði á Eyrarbakka og í lítt einangruðu húsnæði á Eyrarvegi sem Sunnlenska bókakaffið hefur samning um hjá Sveitarfélaginu Árborg. Ekki er þó til aðstaða til að taka þær upp úr kössunum og finna þeim hlutverk eða samastað eins og vonir standa til að verði hægt í nánustu framtíð.

  • Verið er að mála bækur á risastóran vegg Fjölbrautarskóla Suðurlands á Selfossi og það er rosalega flott verkefni sem undirbúningshópurinn er mjög ánægður með.

  • Aðventuupplestur hjá stofnunum Hveragerðisbæjar fyrir jólin var í áhaldahúsinu 2014.

  • Reglulegir upplestrar á bókasöfnum svæðisins.

Einstaklingsframtak í tengslum við bókabæina

Eitt af meginmarkmiðum Bókabæjanna austanfjalls er að hafa góð og bókmenntatengd áhrif á einstaklinga og fyrirtæki á svæðinu. Því er gleðiefni þegar fólk fer af stað með lítil verkefni hér og þar og þegar margt smátt kemur saman verður eitt stórt. Hér verða nefnd nokkur verkefni einstaklinga og fyrirtækja sem eru í gangi núna.

Litla bókahornið

Í andyri Hótels Selfoss stendur Sigrún Farcher fyrir litlu einkaframtaki í samvinnu við bókabæina og kallar hún það „Litla bókahornið” eða “The little books corner" . Það er skiptibókahilla með bækur á erlendum tungumálum sem fólk má skoða, taka með sér eða skilja eigin bækur eftir sem fólk er búið að lesa og vill ekki taka með sér heim Bókabæirnir hafa útvegað bækur til áfyllingar í hilluna. Þetta framtak hefur gefist vel og almenn ánægja er með það meðal gesta að sögn hótelsstjóra og starfsmanna upplýsingamiðstöðvarinnar.

Veitingastaðurinn Meitillinn í Þorlákshöfn

Sigmar Karlsson og Guðrún Sigríks Sigurðardóttir eigendur Meitilsins í Þorlákshöfn hafa tekið Bókabæjunum austanfjalla afar vel og eru alltaf með bækur í hillum. Helgina sem barnabókahátíðin var haldin voru þau með barnabókaþema hjá sér og barnabækur í hillum. Nú hafa þau skipt út barnabókunum fyrir ljóðabækur og jafnframt lesa þau eitt ljóð fyrir matargesti í hádeginu. Þetta eru einmitt þau áhrif sem vonast var til að hafa á fyrirtækin á svæðinu og vonir standa til að fleiri fyrirtæki muni koma á eftir með fullt af góðum bókmenntatengingum.

Ljóðasetur í Hveragerði

Sigurður Blöndal hefur sýnt Bókabæjunum austanfjalls mikinn áhuga. Eftir að Bókabæjaverkefnið fór af stað ákvað hann að láta gamlan draum rætast. Hann hefur nú um skeið unnið að því að koma á fót “ljóðasetri” í Hveragerði og fær til liðs við sig ýmist einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir. Þótt formleg stofnun hafi ekki farið fram hefur nú þegar verið sett af stað ljóðasamkeppni í grunnskólanum og hagyrðingakvöld er fyrirhugað á næstu dögum.

Litla bókasafnið

Hjördís Þorgrímsdóttir íbúi á Selfossi hefur sett upp bókasafn í garðinum sínum í líki fuglahúss og það eru bein áhrif frá Bókabæjunum austanfjalls.

Upplestur íbúa á bóksöfnum Bókabæjanna austanfjalls

Bókabæjarverkefnið „upplestur íbúa“ hefur verið í gangi á árinu í flestum bókasöfnum á svæðinu og gaman er að segja frá því að hún Kristín Ólafsdóttir, Kiddý, kemur vikulega og les fyrir börnin í sjálfboðavinnu á Bókasafni Árborgar. Sigrún Eldjárn las fyrir börn á öllum söfnum Bókabæjanna í tengslum við barnabókahátíðina í september 2015.

Fyrirhugað starf Bókabæjanna austanfjalls

Bókabæjaupplestur á aðventu er hafinn í öllum bæjarfélögunum. Verkefnisstjóri heldur áfram að taka hugmyndir af hugmyndastigi og setja þær á framkvæmdastig og það sem meðal annars er fyrirhugað að vinna áfram í lok þessa árs og á næsta ári er:

  • Að hrinda verkefninu „Leshópur í Bókabæjunum” í framkvæmd en hugmyndina að því verkefni er Júlíus Einarsson á Selfossi. Gert er ráð fyrir því að fá sjálfboðaliða til að lesa fyrir einstaklinga og hópa, t.d. á öldrunarheimilum og þar sem eftirspurn er eftir slíku menningarstarfi. Fram komu hugmyndir um að tengja þetta við starf leikfélaga á svæðinu og heimsóknaþjónustu Rauða krossins en það voru einnig hugmyndir uppi um að hafa þetta áskorendaupplestur þar sem lesarar myndu skora á aðra að vera með næsta upplestur. Þessi hugmynd er enn á hugmyndastiginu en verkefnisstjóra Bókabæjanna austanfjalls hefur sett hana í framkvæmdarflokk og mun hrinda henni í framkvæmd á næstu vikum.

  • Halda áfram að koma bókahillum fyrir hjá fyrirtækjum víðsvega á svæðinu og eru hugmyndir uppi um að fá Viss til liðs við Bókabæina við hönnun og smíði hillanna.

  • Vinna við gerð umhverfisstefnu er áætluð strax í byrjun ársins 2016.

  • Vinna við uppsetningu sýningarinnar ,,Handritin heim” sem er í eigu Byggðasafnsins á Eyrarbakka ef við verðum svo heppin að fá húsnæði fyrir hana.

  • Uppfærsla viðskiptaáætlunarinnar og markmiðasetningar með tilliti til þróunar og framtíðarsýnar nýrrar stjórnar.

  • Vinna ötullega að kynningu verkefna og ná saman góðum vinnuhópi til að kortleggja skáldin og bókmenntirnar á svæðinu. Horft er m.a. til framhaldsskóla- og háskólanemenda sem gætu hugsað sér að nýta sér þetta verkefni í ritsmíðar sínar.

  • Halda áfram að uppfæra heimasíðu og halda bókum og bókamenningu á lofti í ræðu og riti.

  • Markmið næsta árs er að færast í aukana þannig að fleiri íbúar svæðisins verði meðvitaðir um að þeir búi í bókabæjum.

  • Áætlað er að auka veg Bókabæjanna austanfjalls innan ferðaþjónustunnar.

  • Aðventuupplestur fyrirhugaður áfram hjá stofnunum Hveragerðisbæjar fyrir jólin.

  • Hlaupararnir í Frískum Flóamönnum hafa áhuga á að hlaupa bókabæjahringinn með bók í hönd á vordögum, Það gæti orðið skemmtilegt samvinnuverkefni með öðrum hlaupahópum á bókabæjasvæðinu.

Lokaorð

Bókabæirnir austanfjalls er langtímaverkefni og ljóst er að það þarfnast áframhaldandi kynningar og fjármagns til að það skili ætluðum árangri. Nauðsynlegt er að hafa starfsmann sem heldur utan um kynningarstarf og aðstoðar við framkvæmd viðburða. Nú hefur Flóahreppur bæst við svo svæðið er orðið stærra og því er fjarri því að verkefnaskortur sé fyrirsjáanlegur í framtíðinni.


Merkimiðar
No tags yet.
bottom of page