top of page

Aðalfundur 9. desember 2015


Aðalfundur Bókabæjanna austanfjalls

Haldinn í Bókasafni Árborgar (lestrarsal), miðvikudaginn 9. desember klukkan 17:30.

Mætt voru: Hlíf Arndal, Rannveig Anna Jónsdóttir, Elín Finnbogadóttir, Harpa Rún, Bjarni Harðarson, Hafdís Sigurjónsdóttir, Svanhvít Hermannsdóttir, Barbara Guðnadóttir, Greta Önundardóttir og Páll Halldórsson.

Ávarp

Bjarni ávarpaði fundinn. Hann líkti bókinni og bókamörkuðum á Íslandi við bleikan fíl og sagði bókamarkaði ekki á uppleið því þeir legðu áherslu á magn en ekki gæði. Allir skrifa bækur og allir lesa. Bókin er sterkasta jólagjöfin en hún hefur látið undan á undanförnum árum. Hann sagði bókaútgáfu hafa dregist saman og bókina hafa fallið í verði með tímanum. Hann sagði að fasteignasali hefði ráðlagt fólki að fjarlægja bækur fyrir myndatöku á eign því þær gætu fælt kaupendur frá. Hann taldi sjónvarpið ameríkanaseringu og hreinlætismaníu hafa áhrif á minnkandi bókakaup. Við þurfum að hefja gagnsókn og á einhvern hátt að spyrna við fótum, sagði hann. Það má verða flott að hafa bækur inni í stofu og börn þurfa að læra að alast upp við að hafa þær á heimilinu til að ná tengingu við þær. Bókabæirnir geta gegnt hlutverki í þessu, kallað fólk saman og myndað tengslanet og kallað aðila til. Það er áhugi á þessu og sinnuleysi stjórnvalda er áhyggjuefni, sagði hann og að lokum kynnti hann Hlíf sem fundarstjóra og Elínu sem fundarritara.

Ársskýrsla lögð fram

Hlíf útskýrði fyrir fundargestum að ekki hafi áður verið stjórn heldur undirbúningshópur og að verið væri að halda fyrsta formlega aðalfund félagsins. Hún las upp og lagði fram skýrslu Bókabæjanna austanfjalls frá 2014 um upphaf verkefnisins og framvindu til loka ársins 2014. Skýrslan var samþykkt með lófaklappi. Hlíf fór einnig yfir skýrslu fyrir árið 2015 sem er nærri tilbúin og þurfti ekki að samþykkja.

Reikningar lagðir fram

Bjarni lagði ársreikninga 2014 fram til samþykktar. Gerði grein fyrir tekjum og gjöldum. Ársreikningar voru samþykktir.

Lagabreytingar

  • Breytingatillögur samþykkta voru lagðar fram og ræddar. Breytingatillögurnar voru samþykktar með fyrirvara um breytingar á breytingatillögum í 2., 7. og 8. grein.

  • Breytingatillaga kom við 2. grein þar sem segir að heimili og varnarþing skuli vera á Austurvegi 56, 800. Selfossi um að hafa þar frekar „heimili og varnarþing skal vera hjá gjaldkera félagsins hverju sinni“. Breytingatillagan var samþykkt.

  • Í 7. grein kom breytingatillaga um að hafa aðalfund fyrr á árinu. Fundarfólki bar saman um að best væri að hafa aðalfund eigi síðar en 1. apríl. Hlíf óskaði einnig eftir að bæta við í 7. grein ákvæði um kosningu tveggja skoðunarmanna. Breytingatillögurnar voru samþykktar.

  • Í 8. grein var tillaga um að 3 gætu gengið úr 7 manna stjórn í einu við stjórnarskipti. Breytingatillaga kom um að 4 gætu gengið úr stjórn í einu við stjórnarskipti. Önnur breytingatillaga kom um að þar þar stæði að stjórn skipti með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Breytingatillögurnar voru samþykktar.

Ákvörðun félagsgjalds

Félagsgjald átti að vera 3000 kr. árið 2015 og Hlíf lagði til að ný stjórn myndi ákveða félagsgjöld og hvernig standa skuli að því að rukka þau inn. Mikilvægt er að velta fyrir sér ýmsum þáttum þ.á.m. hvaða hag fólk hafi af því að vera félagar í Bókabæjunum austanfjalls. Samþykkt var að leggja félagsgjöld og gerð regluverks um félagsgjöld í hendur nýrrar stjórnar.

Kosning stjórnar

Heiðrún Dóra, Árný, Rannveig Anna og Bjarni gengu úr stjórn. Í nýrri stjórn sitja fulltrúar sveitarfélaganna fjögurra, Hafdís Sigurjónsdóttir fyrir Árborg, Svanhvít Hermannsdóttir fyrir Flóahrepp, Barbara Guðnadóttir fyrir Ölfus og Hlíf Sigríður Arndal fyrir Hveragerði, aðrir stjórnarmeðlimir eru Harpa Rún Kristjánsdóttir, Dorothee Lubecki og Heiðrún Dóra Eyvindardóttir. Stjórnin var samþykkt og boðin velkomin til starfa.

Kosning skoðunarmanna

Bjarni Harðarson bauð sig og Rannveigu önnu fram sem skoðunarmenn reikninga og var það samþykkt.

Önnur mál

Engin önnur mál voru á dagskrá utan stuttrar umræðu um fámenni fundarins.

Fundi var slitið kl. 19:04.

Elín Finnbogadóttir, verkefnisstjóri Bókabæjanna austanfjalls, ritaði fundinn.


Merkimiðar
No tags yet.
bottom of page