top of page

Menningarhátíð í Bókakaffinu á sumardaginn fyrsta

Rithöfundahópur 1005, sönghópurinn Lóurnar og Bókaútgáfan Sæmundur efna til menningarhátíðar í Bókakaffinu á Selfossi á sumardaginn fyrsta. Hátíðin er hluti af dagskrá Vors í Árborg og er aðgangur ókeypis og öllum heimill meðan húsrúm leyfir.

Lóurnar, f.v. talið: Elín Gunnlaugsdóttir, Elísabet Hermundardóttir. Halla Dröfn Jónsdóttir, Halldóra G.  Steindórsdóttir, Kristín Arna Hauksdóttir og Halla Marínósdóttir

Dagskráin hefst með örtónleikum kl. 15 en þá stíga Lóurnar á stokk en hópurinn er skipaður sex söngkonum úr héraðinu, þeim Kristínu Örnu Hauksdóttur, Höllu Dröfn Jónsdóttur, Höllu Marínósdóttur, Halldóru G. Steindórsdóttur, Elísabetu Hermundardóttur og Elínu Gunnlaugsdóttir. Tónleikarnir standa í um 20 mínútur og þar verða á dagskrá þekktir slagarar en einnig ný útsetning Þórðar Magnússonar á lagi Megasar, Spáðu í mig. Tónleikarnir verða endurteknir milli lesara klukkan 17.

Hermann Stefánsson rithöfundur

Rithöfundar stíga svo á stokk klukkan 16 og kynna þá verk sem birtust í hinu merka tímariti 1005. Þá verða einnig lesin brot úr óútgefnum verkum höfunda en eftirfarandi höfundar ráðgera mætingu: Bragi Ólafsson, Eiríkur Guðmundsson, Halldóra Thoroddsen, Hermann Stefánsson, Jón Karl Helgason, Oddný Eir Ævarsdóttir, Óskar Árni Óskarsson Sigurbjörg Þrastardóttir, Sigurlín Bjarney Gísladóttir og Þröstur Helgason.

Dagskráin sem stendur með hléum frá klukkan þrjú síðdegis fer fram í svokölluðum Menningarsal Bókakaffisins. Þar verður kaffi og te í boði hússins.


Merkimiðar
No tags yet.
bottom of page