top of page

Barnabókahátíð Bókabæjanna austanfjalls

Barnabókahátíð Bókabæjanna austanfjalls verður haldin dagana 21. og 22. október næstkomandi.

Hátíðin hefst á föstudeginum með því að Vísinda Villi kemur í heimsókn í bókasöfn Bókabæjanna austanfjalls og les upp úr bókum sínum fyrir börnin ásamt því að kynna undraveröld vísindanna fyrir þeim.

Vísinda Villi verður kl. 14:00 í Bókasafninu í Hveragerði, kl. 15:00 í Bókasafni Árborgar, Selfossi og kl. 16:00 í Bæjarbókasafni Ölfuss í Þorlákshöfn.

Á laugardeginum heldur gleðin áfram og kl. 13:15 verður skrúðganga frá Bókasafninu í Hveragerði að Grunnskólanum í Hveragerði undir stjórn skátafélagsins Stróks í Hveragerði. Hátíðardagskrá hefst síðan kl. 13:30 í sal Grunnskólans þar sem sýndur verður frumsaminn leikþáttur; Spakk og Hakkettí í flutningi 7. Bekkjar GÍH. Tónlistaratriði verður í höndum Dagnýjar Höllu Björnsdóttur þar sem hún spilar á gítar og syngur með börnunum og opnaðar verða smiðjur fyrir skapandi börn. Í smiðjunum verður börnunum boðið upp á að endursegja sögur, mála með fingramálningu, lesa í lestrarhorni og búa til skúlptúra úr bókum ásamt því að leysa léttar þrautir.

Boðið verður upp á kleinur og kaffi ásamt ávaxtadrykkjum fyrir börnin. Foreldrar og aðrir aðstandendur eru velkomnir.

Barnabókahátíð Bókabæjanna austanfjalls er ætlað að auka áhuga barna á lestri sér til skemmtunar og stuðla að yndislestri þeirra með því að styrkja læsi og örva lestrarvenjur. Mikilvægt er að börn missi ekki af þeirri ævintýraveröld sem bækur geta boðið upp á.

Hátíðin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands.

Bókabæirnir austanfjalls eru Árborg (Selfoss, Eyrarbakki og Stokkseyri), Hveragerði, Sveitarfélagið Ölfus og Flóahreppur og styrkja sveitarfélögin starfsemi félagsins. Markmið Bókabæjanna austanfjalls er að gera bókum hátt undir höfði á ýmsan hátt, m.a. með því að vekja athygli á bókum og bókmenntum og finna gömlum, notuðum bókum nýjan farveg. Upplýsingar um félagið má finna á www.bokabaeir.is og á Facebook.


Merkimiðar
No tags yet.
bottom of page