Barnabókahátíð á Selfossi
Barnabókahátíð á Selfossi 2015
Barnabókahátíð var haldin í Bókabæjunum austanfjalls 18. og 19. september og byrjaði með upplestri í almenningsbókasöfnum bókabæjanna föstudaginn 18. september. Sigrún Eldjárn rithöfundur kynnti bækur sínar og las upp úr nýjustu bók sinni, Leyniturninn á Skuggaskeri, sem þá var enn ekki komin út.
Kl. 14:00 á Bókasafninu í Hveragerði
Kl. 15:00 á Bæjarbókasafni Ölfuss í Þorlákshöfn
Kl. 16:00 á Bókasafni Árborgar Selfossi
Þann 19. september var hátíðin í Árborg og hittust hátíðargestir klukkan 13:00 við Bókasafn Árborgar. Þaðan fór skrúðganga sem stjórnað var af Skátafélaginu Fossbúum yfir í Fjölbrautaskóla Suðurlands að Tryggvagötu 25 þar sem aðalhátíðin var. Allir voru hvattir til að mæta í gervi uppáhalds sögupersóna sinna. Hátíðin var styrkt af Menningarsjóði Suðurlands. Leikfélag Selfoss sýndi leikþáttinn Gilitrutt, Margrét Eir söng fyrir börnin og Lalli töframaður var með töfrabrögð og blöðrublástur. Á barnabókahátíðinni var börnum boðið að taka virkan þátt í föndursmiðjum sem báru yfirskriftina: Bók verður til, Lestrarhestahornið og Listaverk úr bókum sem enginn vill eiga. Þeim var ætlað að skapa góðar minningar um bækur og bókalestur og hvetja til umhverfisvænna viðhorfa, nýtni og skapandi hugsunar. Þátttaka í hátíðahöldunum var góð og fóru bæði þátttakendur og umsjónarmenn glaðir heim.
Bókabæirnir austanfjalls vonast til að þessi hátíð nái að festa sig í sessi á haustdögum í framtíðinni því líklegt er að hátíðin skapi góðar minningar hjá börnum og veki þau til umhugsunar um lestur og hlutverk bóka.