top of page

Um okkur

Undirbúningshópurinn: Dorothee Lubecki, Anna Jónsdóttir, Bjarni Harðarson, Heiðrún Dóra Eyvindardóttir,Árný Leifsdóttir og  Hlíf Arndal.

Bókabæirnir austanfjalls

 

Bókabæirnir austanfjalls eru klasi samstarfsaðila sem tengjast bókum, menningu og ferðaþjónustu á svæðinu. Lykilfyrirtæki verkefnisins við upphaf þess voru Sunnlenska bókakaffið og Konubókastofan á Eyrarbakka, auk þeirra standa að verkefninu Sveitarfélagið Árborg, Sveitarfélagið Ölfus, Hveragerðisbær, Flóahreppur, Markaðsskrifstofa Suðurlands, Bókasafn Árborgar, Listvinafélag Hveragerðis auk fjölda aðila í ferðaþjónustu, menntun og menningu á svæðinu.

 

Verkefnið er hluti af alþjóðlegu samstarfi Bókabæja sem starfa í 14 löndum og þremur heimsálfum. 

 

Bókabæirnir austanfjalls hafa hug á að breyta ímynd svæðisins og gera það eftirsókarverðara til búsetu og starfa. Bókmenning hefur átt djúpar rætur í héraðinu allt frá miðöldum. Í Hveragerði var frægasta skáldanýlenda þjóðarinnar í svokallaðri skáldagötu og á fyrri tíð höfðu vermenn í Þorlákshöfn sérstakt lestrarfélag. Í Árborg er öflugt bóksafn í fegursta húsi Selfossbæjar, dunandi fjör í Bókakaffi og Konubókastofan á Eyrarbakka er vinsæll viðkomustaður. 

 

Markmið Bókabæjanna austanfjalls er meðal annars að fá íbúa svæðisins til að taka sem mestan þátt í því að kynna bækur, varðveita þær og stuðla að því að fólk á öllum aldri haldi áfram að njóta bókalesturs. Bækur eru alltaf aðgengilegar svo framarlega sem þær eru varðveittar, enda hverfa þær ekki í ólgandi haf veraldarvefsins sem þýtur hjá okkur á ógnarhraða og endurnýjar sig á hverju degi. Texti sem er skrifaður og prentaður í bók, varðveitist þar og bíður næsta lesanda um ókomna tíð.

 

Bókabæirnir austanfjalls eru hugsaðir sem sameiginleg eign okkar allra sem búum innan svæðisins, og sem vettvangur þar sem við getum öll unnið að því saman að varðveita einn dýrmætasta arf okkar; bókmenntirnar.

 

 

Fyrir hverja eru Bókabæirnir?

 

Fyrir menningartengda ferðaþjónustu

Menningartengd ferðaþjónusta gerir okkur kleift að taka við auknum fjölda ferðamanna án þess að ganga á náttúru svæðisins. Við ætlum að merkja út staði og leiðir sem hafa bókmenntalegar tengingar, svo sem fótspor sögupersóna og skálda. 

 

Fyrir bókmenntalegt starf í heimabyggð. 

Í bókabænum Wigtown í Skotlandi fer fram gagnvirkt og öflugt samstarf við skóla og samfélag. Með því að stuðla að bókmenntalegri sköpun íbúa tengjum við Bókabæina við alla aldurshópa. 

 

Fyrir verslun og viðskipti. 

Vegna nálægðar við höfuðborgarsvæðið hefur svæðið mikla möguleika en þarf um leið að skapa sér sérstöðu. 

bottom of page