Viðburðir Bókabæjanna austanfjalls
Bókabæirnir austanfjalls stóðu fyrir nokkrum viðburðum starfsárið 2015.
Bókamarkaður í Hveragerði
Settur var upp bókamarkaður Bókabæjanna austanfjalls í húsnæði Leikfélags Hveragerðis að Austurmörk 23, Hveragerði. Markaðurinn opnaði föstudaginn 26. júní og var opinn allar helgar yfir sumarið, frá föstudegi til sunnudags kl. 12-18, síðasta opnunarhelgin var 14.-16. ágúst á bæjarhátíðinni Blómstrandi dögum. Alls var markaðurinn opinn 8 helgar. Launaður starfsmaður sá um bókamarkaðinn að mestu. Góður rómur var gerður að bókamarkaðnum og viðtökur voru framar vonum. Talsverð aðsókn var og sala þokkaleg og margir spurðu hvort þetta yrði ekki örugglega endurtekið næsta sumar. Viðburðir voru flestar helgarnar, bæði til að kynna bækur og til að skemmta þeim sem komu á markaðinn, uppboð, söngur, upplestur, garðyrkjusýning og fleira. Markaðurinn var samt rekinn með dálitlu tapi.
Barnabókahátíð á Selfossi
Barnabókahátíð var haldin í Bókabæjunum austanfjalls 18. og 19. september og byrjaði með upplestri í almenningsbókasöfnum bókabæjanna föstudaginn 18. september. Sigrún Eldjárn rithöfundur kynnti bækur sínar og las upp úr nýjustu bók sinni, Leyniturninn á Skuggaskeri, sem þá var enn ekki komin út.
Kl. 14:00 á Bókasafninu í Hveragerði
Kl. 15:00 á Bæjarbókasafni Ölfuss í Þorlákshöfn
Kl. 16:00 á Bókasafni Árborgar Selfossi
Þann 19. september var hátíðin í Árborg og hittust hátíðargestir klukkan 13:00 við Bókasafn Árborgar. Þaðan fór skrúðganga sem stjórnað var af Skátafélaginu Fossbúum yfir í Fjölbrautaskóla Suðurlands að Tryggvagötu 25 þar sem aðalhátíðin var. Allir voru hvattir til að mæta í gervi uppáhalds sögupersóna sinna. Hátíðin var styrkt af Menningarsjóði Suðurlands. Leikfélag Selfoss sýndi leikþáttinn Gilitrutt, Margrét Eir söng fyrir börnin og Lalli töframaður var með töfrabrögð og blöðrublástur. Á barnabókahátíðinni var börnum boðið að taka virkan þátt í föndursmiðjum sem báru yfirskriftina: Bók verður til, Lestrarhestahornið og Listaverk úr bókum sem enginn vill eiga. Þeim var ætlað að skapa góðar minningar um bækur og bókalestur og hvetja til umhverfisvænna viðhorfa, nýtni og skapandi hugsunar. Þátttaka í hátíðahöldunum var góð og fóru bæði þátttakendur og umsjónarmenn glaðir heim.
Bókabæirnir austanfjalls vonast til að þessi hátíð nái að festa sig í sessi á haustdögum í framtíðinni því líklegt er að hátíðin skapi góðar minningar hjá börnum og veki þau til umhugsunar um lestur og hlutverk bóka.
Málþing í Þorlákshöfn
Bókabæirnir austanfjalls vildu auka hróður barnabókarinnar og vekja athygli á mikilvægi barnabóka í eflingu læsis. Því stóðu þeir fyrir málþinginu „Af hverju þarf ég að lesa?“ og var það sjálfstætt framhald Barnabókahátíðar Bókabæjanna austanfjalls sem haldin var á Selfossi í september 2015. Inntak málþings var barnabókmenntir og læsi - hlutverk barnabókarinnar í eflingu læsis. Spurningunum „af hverju erum við að þessu?“ og „af hverju þurfa börn að lesa?“ var leitast við að svara frá hinum ýmsu sjónarhornum. Ólína Þorleifsdóttir kennsluráðgjafi skólaþjónustu Árnesþings stjórnaði málþinginu og var dagskráin eftirfarandi:
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra setti málþingið
Margrét Tryggvadóttir bókmenntafræðingur og rithöfundur var með fyrirlesturinn „Skipta barnabækur máli?
Gerður Kristný rithöfundur og ljóðskáld var með fyrirlesturinn „Bækur breyta heiminum“
Lára Aðalsteinsdóttir verkefnisstjóri Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO var með fyrirlesturinn „Komdu með á hugarflug
Andri Snær Magnason rithöfundur sagði nokkur vel valin orð um barna og unglingabækur og velti fyrir sér hvað má segja við börn og hvað má vera í námsbókum.
Annað
-
Bókabæirnir urðu á árinu 2015 félagar í IOB sem eru alþjóðleg samtök bókabæja í heiminum. International Organisation of Book Towns. Sjá: http://www.booktown.net/
-
Reglulegir upplestrar á bókasöfnum og hjá bóksölum á svæðinu.