Af hverju þarf ég að lesa?
Málþing haldið í Þorlákshöfn 12. nóvember 2015
Bókabæirnir austanfjalls fengu styrk frá SASS, Samtökum Sveitarfélaganna á Suðurlandi, til að auka hróður barnabókarinnar og vekja athygli á mikilvægi barnabóka í eflingu læsis. Því stóðu þeir fyrir málþinginu „Af hverju þarf ég að lesa?“ og var það sjálfstætt framhald Barnabókahátíðar Bókabæjanna austanfjalls sem haldin var á Selfossi í september 2015. Inntak málþings var barnabókmenntir og læsi - hlutverk barnabókarinnar í eflingu læsis. Spurningunum „af hverju erum við að þessu?“ og „af hverju þurfa börn að lesa?“ var leitast við að svara frá hinum ýmsu sjónarhornum. Ólína Þorleifsdóttir kennsluráðgjafi skólaþjónustu Árnesþings stjórnaði málþinginu og var dagskráin eftirfarandi:
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra setti málþingið
Margrét Tryggvadóttir bókmenntafræðingur og rithöfundur var með fyrirlesturinn „Skipta barnabækur máli?
Gerður Kristný rithöfundur og ljóðskáld var með fyrirlesturinn „Bækur breyta heiminum“
Lára Aðalsteinsdóttir verkefnisstjóri Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO var með fyrirlesturinn „Komdu með á hugarflug
Andri Snær Magnason rithöfundur sagði nokkur vel valin orð um barna og unglingabækur og velti fyrir sér hvað má segja við börn og hvað má vera í námsbókum.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra
Illugi hóf umræðuna á málþinginu. Hann sagðist hafa eins og svo margir aðrir haft þær hugmyndir lengi vel að allir væru læsir á Íslandi en raunin væri önnur.. Því er hann búinn að setja í gang áætlanir um það hvernig best sé að efla læsi og auka lestur barna. Staðan sem er komin upp er sú mynd sem dregin er upp í PISA rannsóknum, sagði Illugi, tæplega 30% nemenda sem útskrifast úr grunnskóla hafa ekki náð tökum á því sem á að læra og lenda í erfiðleikum eftir að grunnskóla lýkur. Stór hluti þessara krakka kann ekki að lesa sér til gagns en um það snýst læsi. Fyrir lesandi þjóð með þá sterku læsissjálfsímynd sem hún hefur eru þetta sláandi tíðindi. En PISA mælir ekki þrautsegju, félagsþroska eða sjálfsmynd. Fjölmargar þjóðir hafa lent í þessu og Svíar standa verr. Hvers vegna strákar standa verr en stelpur vitum við ekki. Við viljum veita meiri stuðning til kennaranna, skólanna til lestrarkennslu. Það hefur vantað uppá þetta og einnig er mikilvægt að virkja foreldrasamtökin. Þetta eru þau skref sem tekin hafa verið. Þau eru ekki nægjanleg en einhversstaðar þarf að byrja. Það að styðja við kennarana til lestrarkennslu þýðir ekki að Illugi ætli að gera breytingar sem bitna á öðrum greinum, það kemur ekki til greina að taka út skapandi greinar fyrir aukna lestrarkennslu, sagði hann.
Svo vék Illugi sér að barnabókunum og nefndi nokkarar tegundir læsis í því samhengi m.a. myndlæsi og félagslæsi. Hann talaði um mikilvægi djúplesturs og hve mótandi áhrif hann getur haft á börnin. Hann sagði að ef börn næðu ekki tökum á lestri yrðu þau fyrst óörugg og svo reið. Svo vitnaði hann í Kára Stefánsson sem sagði að best væri að lesa skáldsögur til að efla ímyndunaraflið tl að verða góður og vísindalæs vísindamaður. Kostur bókarinnar er nefnilega sá að hún kallar á ímyndunaraflið og hefur allt að gera með að þroskast og þróast sem manneskja. Menntun og menning eru stór þáttur í að verða manneskja, sagði Illugi. Sá sem getur ekki lesið á lengri leið til þess að verða að manneskju. Það að hafa skemmtilegar bækur fyrir hvern aldursflokk er nauðsynlegt og gefandi fyrir börn og þá sem eru í kringum börn. Börn sjá svo mikið barnaefni á ensku en hvað getum við gert til að örva rithöfunda til að halda áfram að skrifa barnabækur? Spyr Illugi.
Margrét Tryggvadóttir bókmenntafræðingur og barnabókahöfundur.
Af hverju eru barnabækur mikilvægar? Spurði hún. Svo svaraði hún spurningunni og sagði: „Þeim tekst að lauma sér inn í barnaveröldina og hafa áhrif.“ Sögurnar hjálpa okkur við að læra á heiminn. Í sögulegu samhengi eru sögur okkur mikilvægar. Ímyndum okkur hellamálverkin. Við skilgreinum okkur í gegnum sögur og þær eru allstaðar í kringum okkur. Það skiptir máli hvaða sögur við segjum börnunum okkar. Miðlunarmöguleikum hefur fjölgað og samfélagið virðist alveg hafa hætt að fylgjast með og skilgreina. Það koma fréttir af hryggskekkjum vegna símanotkunar. Við eigum auðvitað ekki að taka tæknina af börnunum heldur kenna þeim og slökkva öðru hvoru á henni og þjálfa þau í þögn og tæknileysi. Sagt er að af misjöfnu þrífist börnin best og þótt þetta máltæki eigi ekki oft vel við getur það vel átt við með barnabækur. Ef börn fá nóg að lesa er í lagi þótt ein og ein léleg slæðist með inn á milli. Það góða vegur upp á móti öllu draslinu. Sumt er gott á heimsvísu en annað á bara við Ísland. Það eru ekki nema um 3000 börn í hverjum árgangi og viðskiptalega gengur þetta illa upp. Bækur fyrir yngstu börnin eru dýrastar því það kostar mikla peninga að prenta litaðar myndir. Forlögin kaupa frekar í gegnum netið. Margrét lét nokkrar barnabækur ganga um salinn og hvatti áheyrendur til að skoða myndirnar og spá í það hvort þetta væru íslenskar bækur. Hún sagði að farin væri ódýr leið til að framleiða íslenskar barnabækur í tonnavís sem væru kannski bara drasl. Íslenskar barnabækur spegla okkur. Mikilvægustu bækurnar eru þær sem spegla samtíma okkar og okkur sjálf og við þurfum að fá að lesa bækur um okkur. Það skiptir miklu máli! Margrét sagði frá Gunnari Helgasyni, sem skrifar bækur um fótboltakrakka m.a. Honum þótti víst leiðinlegt að lesa þar til hann las bókina um sig, Jón Odd og Jón Bjarna eftir Guðrúnu Helgadóttur. Í þeirri bók fann hann samhljóm og fór að lesa, þess vegna skiptir íslenska barnabókin máli. Til að finna þennan samhljóm sem fær börn til að vilja halda áfram að lesa.
Gerður Kristný barnabókahöfundur
Þgar hún lítur til baka og skoðar sig á áttunda áratug síðustu aldar rifjar hún upp Emil í Kattholti og Pollýönnu. Börn fara í sund ef það er stutt þangað. Börn laðast að bókasöfnum og þess vegna á að vera auðvelt fyrir þau að komast þangað. Á bóksafninu býr þekking, gleði og fróðleikur. Hvers vegna er mikilvægt að börn lesi? Spyr hún. Erum við hæf til að ala upp bókafólk? Tölum um stíl og efnistök og tölum um söguna sjálfa. Ef við rekumst á barn á skólaaldri spyrjum við: Hvað ert þú að lesa? Ræðum um bækur og ljóð og spyrjum börnin um hvað þau eru að lesa og svörin geta orðið áhugaverð. Gerði finnst gaman að vera umkringd börnum sem hafa gaman af bókum. Hún segir útlit bókanna skipti líka máli, letur þarf að vera gott og síðurnar hvítar, ekki gulleitar og lyktin af bókum er góð. Takmarkað fé er til barnabókakaupa á bókasöfnum. Bækur eru eins og tískuvara. Gefum börnum bók. Tölum um bækur við börn. Það er til fullt af krökkum sem hafa gaman af að lesa.
Lára Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur og verkefnastjóri Bókmenntaborgarinnar UNESCO.
Komdu með á hugarflug
Skapandi borgir skiptast í 7 flokka. Í okkar flokki eru 11 borgir. Netið er að stækka og það vex mjög hratt. Ekki peningar í þessu.
Margir hagsmunaaðilar koma að þessu. Hún vinnur að stefnumörkun og það birtast ný tækifæri á hverju ári. Íslensk ljóð rúlla á vegg í Kraká og margt fleira er í gangi. Það þarf að halda umræðunni lifandi og við megum ekki sofna á verðinum varðandi læsi því það skiptir máli að geta lesið sér til gagns því t.d.á tímum tölvusamskipta snúast samskipti mikið til um að skrifa og lesa. Ef þú ætlar að ná virkni í samskiptum þarftu að kunna að lesa.Við þurfum að kenna börnunum okkar ólíka hluti og góðar barnabækur eru mikilvægt verkfæri sem við eigum að nýta. Börnin okkar kunna að velja sér góðar bækur og þær eru leiðarljósið sem þarf til að finna barnamenningu farveg í þróun bókmenntaborgar. Þú þarft að lesa.Ein af 5 meginstoðum verkefnisins er „lestrarhvatning“. Hvernig getum við miðlað lestrarhvatningu til barna? Hvatning er fyrir það fyrsta ekki nógu gott orð, það virkar betur að tala um gleði. Hvað eru aðrar borgir að glíma við? Jú börn vantar lestrarfélaga. Foreldrar nenna ekki að hlusta á börnin sín lesa og þá er að finna lestrarfélaga. Sumsstaðar sinna hundar þessu hlutverki að sitja og hlusta á börn lesa. Eftir að hafa skoðað fótboltastjörnur, dúkkur og hunda lögðust verkefnastjórarnir undir feld og eftir urmæður og vangaveltur kom í ljós að hér eigum við okkar Pegasus, hann Sleipni. Hann gæti orðið þessi hvetjandi fyrirmynd sem örvar börn til að lesa, Sleipnir lestrarhestur. Sleipnir sem í Norrænni goðasögu er fákur Óðins, hesturinn sem flaug með hann hvert sem er. Sleipnir sem er með átta fætur, skapandi og ögrandi. Svo bjuggu þau til plakat og bókamerki. Sleipnir hinn áttfætti hestur Óðins hlustar á börn lesa. Þessum hesti var hleypt af stað árið 2013 og var honum vel tekið. Ratleikur var settur af stað og þrívíddarteiknaður búkur búinn til. Það er gaman að mæta með þennan hest, sagði Lára, því krakkar elska hann en hann er risastór og það getur verið erfitt að vera lengi í búningnum því hann er heldur hlýr. Sleipnir light er í bígerð. En hann hefur náð stað í huga barnanna. Hann segir ekki neitt, sem er kostur því þá getur hver sem er leikið hann. Gerður Kristný skrifaði ítarefni um Sleipni, litla sæta sögu til að tala um við krakkana og ná allskonar umræðu á eftir. Umræðuefnið er mismunandi eftir hópum og væntingum. Það er fínt að fá hann inn sem skemmtilegt viðbit. Þessi var skrifaður fyrir leikskólann og næsta saga verður skrifuð fyrir grunnskólann. Lára sér tækifæri til að tengja hann hátt upp í aldurshópa. Sleipnir lestrarfélagi ferðast vítt og breytt. Hann hlustar og gagnrýnir ekki. Lestur er mikilvægur og Sleipnir elskar að hlusta á krakka lesa. Krakkar sem lesa ná árangri. Niðurstöður úr lestrarkönnunum segja það ótvírætt. Börn vilja sjálf velja sér bækur, við eigum ekki að stýra því. Þau vilja hitta aftur og aftur sömu hetjurnar sínar, alveg eins og við. Við viljum okkar Arnald og Lukkuláka eða aðrar kunnuglegar persónur. Slökkvum á áreitinu og gefum okkur og börnunum okkar tækifæri og næði til að lesa. Við erum alltaf að lesa fólk, myndir, texta og tölur. Bókamessa í bókmenntaborg
Andri Snær Magnason rithöfundur og talsmaður náttúrunnar
Hann skrifar ekki beint sögur fyrir börn. Ragnar kennari í barnaskólanum á Stokkseyri og Eyrarbakka bað hann eitt sinn um að halda fyrirlestur í skólanum og ræða við 8.-10. Bekkinga um skoðun sína á virkjanamálum. Andri sagði það vera of mikla pólitík fyrir börnin en Ragnar sagði svo ekki vera. Vertu bara sannur, sagði Ragnar, talaðu út frá hjartanu og segðu frá þínum hugðarefnum. Krakkarnir fá miða heim og ef foreldrarnir hafa skoðun þá geta þeir miðlað henni með því að senda miða með þeim til baka. Andri fór í tíma til krakkanna og talaði við þá eins og fullorðið fólk. Í Belgíu voru börn sendiherra og ríkra. Í Belgíu hélt hann fyrirlestur fyrir börn sendiherra sem voru með þannig kúltúr að hægt var að tala við þau um róttæk málefni. Börn þurfa að læra að tala um samfélagsmál eða hvað? Á að vernda þau? Hversu lengi á sú „verndun að vara? Hvenær mega þau hafa skoðun? Það þarf að kenna þeim að greina upplýsingar og skoða hvernig eitt svið getur blandast öðrum sviðum. Af 15 stærstu gjaldþrotum heimssögunnar eru þrjú í slensk fyrirtæki, Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn. Þetta fólk var rjóminn úr MR. Læsustu krakkarnir sem sköpuðu þrjú af fimmtán stærstu gjaldþrotum veraldarsögunnar.
Fréttir Moggans í morgun: Vegurinn gegnum Gálgahraun er tilbúinn. Þar giltu engin rök á móti verkfræðirökum. Lávarðadeildin eða eðlisfræðibrautin, þar sem þeir sem voru góðir í stærðfræði misstu í raun og veru af heimspeki og íslensku, félagsfræði, hönnun og myndlist. En þeir fengu skilaboð um það að þeir væru “bestu mennirnir" og svo var þeim sleppt út í náttúruna. Þetta er ,,læsa" fólkið. Ef maður skoðar lífsleiknibækur verður maður hugsi. ,,Þetta er vatnsaflsvirkjun, sumir fíla hana ekki og aðrir hafa atvinnu af henni". Já þar er haldið í moðið en ekki boðið uppá frumtextann sem þarf að vera hreinn og klár siðferðislega og pólitískt. Þetta er heimurinn sem þau þurfa að takast á við og þau þurfa að fá tækifæri til að sjá hann.