Bók um bók: Lestrarverkefni sem hefur slegið í gegn
Það er fallegur föstudagsmorgunn og ég keyri varlega eftir glerhálum, ísilögðum Suðurlandsveginum. Leið mín liggur til Hveragerðis en þar ætlaði ég að fara í mínu fyrstu heimsókn í Grunnskólann í Hveragerði.
Grunnskólinn í Hveragerði skartaði sínu fegursta þennan morgun
Kennararnir sem ég hef mælt mér mót við eru Kolbrún Guðmundsdóttir og Ólafur Jósefsson. Kennslan er í fullum gangi þegar ég kem en þau láta það ekki á sig fá og taka glaðlega á móti mér. Börnin eru önnum kafin og virðast ekkert láta þennan gestagang trufla sig. Börnin sitja ýmist við borðin sín og skrifa eða standa uppi á kennaraborðinu fyrir framan stórt Íslandskort sem hangir úr loftinu. Einbeitingin skín úr andlitum þeirra en þau eru að merkja staði inn á kortið. Ég verð strax forvitin að vita hvaða verkefni þau eru að vinna.
Börnin geta valið úr þremur flokkum barnabóka
Börnin, sem eru í 6. bekk, eru að vinna í verkefninu Bók um bók, en það er lestrarverkefni sem Kolbrún og Ólafur fóru af stað með í vetur. Kennararnir ákváðu að fara af stað með þetta lesverkefni þar sem börnin eru hvött til þess að lesa sígildar barnabækur, bæði eftir innlenda og erlenda höfunda. Mörg börn þekkja jafnvel ekki lengur klassísku verkin eftir okkar helstu barnabókahöfunda og er verkefnið liður í því að kynna börnunum fyrir þeim, auk þess sem verkefnið er til þess fallið að auka lestur barna.
Börnin fá að velja úr þremur flokkum. Í fyrsta flokknum eru karlrithöfundar eins og Ármann Kr. Einarsson, Indriði Úlfsson og Kristján Jóhannsson. Í næsta flokki eru kvenrithöfundar og eru þær nokkuð fleiri en þar má meðal annars finna nöfn eins og Guðrúnu Helgadóttur, Kristínu Steinsdóttur og Iðunni Steinsdóttur. Í þriðja flokknum eru svo erlendir barnabókahöfundar eins og Astrid Lindgren, Enid Blyton og Franklin W. Dixon. Kennararnir settu listana saman í samvinnu við Hlíf. S. Arndal, forstöðukonu Bókasafnsins í Hveragerði og einn stofnenda Bókabæjanna austanfjalls.
Hér má sjá hvar börnin eru búin að merkja staðsetningu sína inn á kortið
Samhliða lestrinum búa nemendur sér til bók um bókina, þar sem þau vinna úr því efni sem þau voru að lesa. Sem dæmi eiga þau að búa til nýjan endi á bókina sem þau lásu, þau eiga að búa sér til nýja kápu utan á bókina og svo eiga þau að mynda sér skoðun á bókinni og skrifa um það. Það er því ljóst að með verkefninu eru börnin ekki eingöngu hvött til þess að lesa meira, heldur eru þau einnig að þjálfa sig í að mynda sér sjálfstæða skoðun og koma því niður á blað.
6. bekkur í Grunnskólanum í Hveragerði glaður í bragði fyrir framan Íslandskortið
Stærðfræði og landafræði í leiðinni
Ég er forvitin að vita meira um Íslandskortið og Ólafur útskýrir að þau umbreyta blaðsíðufjöldanum sem þau lesa í kílómetra og „ferðast“ þannig í kringum landið. Þau þurfa að reikna út kílómetrafjöldann sinn og mæla hann á Íslandskortinu svo þau geti merkt staðsetninguna inn á. Þannig eru þau einnig að nota stærðfræði og að læra ýmislegt í íslenskri landafræði í leiðinni. Verkefnið er því margþætt og greinilega til þess fallið að fá börnin til að vinna sjálfstætt. Það er nefnilega undir þeim komið hversu hratt þau ferðast í kringum landið.
Kolbrún Guðmundsdóttir og Ólafur Jósefsson grunnskólakennarar
Kolbrún og Ólafur segja að verkefnið hafi gengið virkilega vel og það sem kom þeim skemmtilega á óvart var hversu mikið foreldrarnir hafa tekið þátt í þessu með börnunum. Þau muna sjálf eftir bókunum sem lesnar eru þannig að það myndast skemmtileg stemning og fleiri samverustundir skapast í kringum bækurnar. Verkefnið stendur til 29. apríl en þá ætla þau að vera komin í kringum landið. Þegar verkefninu lýkur verður eitthvað verulega skemmtilegt gert með börnunum. Ég kveð Kolbrúnu og Ólaf hress í bragði og er full bjartsýni á að komandi kynslóð sé í góðum höndum.