top of page

Haraldur Blöndal fiskeldisfræðingur í Ölfusi


Haraldur Blöndal fjölskyldumaður og fiskeldisfræðingur er lestrarhesturinn okkar að þessu sinni. Hann er uppalinn í Fljótshlíðinni en býr í Hveragerði og starfar hjá Íslandsbleikju á Núpi í Ölfusi.

Þegar Haraldur var spurður hvaða bók væri á náttborði hans og hvernig hún væri sagði hann yfirleitt 2-3 bækur vera á náttborðinu sínu. Hann flakkar á milli þeirra eftir því hversu miklu lestrastuði hann er í. Yfirleitt er ein sagnfræðitengd bók, ein trúarlegs eðlis og eitthvað léttmeti, oftar en ekki Morgan Kane en markmiðið er að safna allri þeirri seríu. Núna eru tvær bækur á borði hans: „The Human drama of our highest office – the American President“ og „Þórðarbókin“, ljóðasafn eftir Þórð Helgason. Fyrri bókina keypti hann úti í Washington árið 2003 og les reglulega í henni en þetta er mjög vönduð bók þar sem farið er í gegnum sögu forseta Bandaríkjanna. Seinni bókina áskotnaðist honum nýlega og er hún ljóðabók sem fjallar um sumarvist drengs í Fljótshlíðinni fyrir u.þ.b. 50-60 árum síðan.

Þegar Haraldur var inntur eftir hvaða bókmenntir hann læsi helst sagðist hann helst lesa sagnfræðitengt efni og sögulegar skáldsögur. Einnig hefur hann gaman af ævisögum mikilmenna heimsögunnar og ferðasögum. Það sem heillar hann helst við þessar sögur er m.a. það að hann hefur gaman af tímaflakki sem og eins og er er þetta eini möguleikinn til þess og einnig mjög örugg leið því að lífsbaráttan hefur ekki alltaf verið jafn auðveld og núna. Auðvelt að loka bókinni og komast aftur í þægindin sem fylgja lífinu hér á Íslandi.

Haraldur var spurður um uppáhalds eða eftirminnilega bók og hvað það væri sem gerði hana eftirminnilega. Hann svaraði því til að „Þrúgur reiðinnar“ og „Austan Eden“ eftir John Steinbeck væru bækur sem ég er mjög hrifin af en fyrri bókina fann hann í bókaskápnum heima þegar hann var unglingur og heillaðist mjög af henni. John Steinbeck er að hans mati snillingur í að draga mann inn í bókina, umhverfið verður ljóslifandi og maður finnur fyrir lyktinni, rykinu, sorginni og gleðinni. Hafði líka gaman af því að Steinbeck hlífir engum og þegar hann las Þrúgur reiðinnar fyrst þá hafði hann ekki kynnst slíku fyrr en auðvitað er það þannig að slæmir hlutir koma einnig fyrir gott fólk.

Við þökkum Haraldi Blöndal lestrarhesti kærlega fyrir að gefa okkur innsýn í bókmenntaheim sinn og óskum honum ánægjulegs lesturs í vetur.

Merkimiðar
No tags yet.
bottom of page