Líflegur vinnufundur í Frystihúsinu á Eyrarbakka
Bókabæirnir austanfjalls boðuðu um liðna helgi til opins fundar í Frystihúsinu á Eyrarbakka sem áður hýsti fyrirtækið Gónhól. Um 30 manns mættu á fundinn sem var líflegur Þar var stofnað til vinnuhópa um hin ýmsu verkefni og líflegur umræður spunnust um framtíð Bókabæjanna.
Bókabæirnir hafa til bráðabirgða fengið aðstöðu í Frystihúsinu á Eyrarbakka en þar fer nú fram uppbygging á hótelstarfssemi. Þá er til skoðunar að Prentsögusetur fái ásamt bókabæjarstarfssemi framtíðarhúsnæði í þeirri álmu hússins sem er næst sjóvarnargarði. Þar yrði ennfremur sett upp aldamótaþorp sem fyrri eigendur hússins hófu undirbúning á fyrir nokkrum árum. Jóhann Jónsson athafnamaður á Eyrarbakka sem stendur að uppbyggingu í húsinu kynnti á fundinum framtíðarnýtingu þess og sagði að allt að 400 fermetrum í suðurálmunni gæti farið til menningartengdrar starfssemi.
Svanur Jóhannesson prentari kynnti hugmyndir að stofnun félags um Prentsögusetur. Á fundinum kom fram mikill áhugi á að tengja þessi tvö verkefni, Prentsögusetur og Bókabæina og verður áfram unnið að því. Formlegur stofnfundur Prentsöguseturs verður haldinn í Þjóðarbókhlöðu 21. febrúar næstkomandi.
Leshópur í Bókabæjunum
Meðal þeirra vinnuhópa sem stofnað var til á fundi Bókabæjanna laugardaginn 17. janúar var Leshópur. Frumkvöðull í þessu verkefni, Júlíus Einarsson á Selfossi, kynnti hugmyndina. Gert er ráð fyrir því að sjálfboðaliðar lesi fyrir einstaklinga og hópa, t.d. á öldrunarheimilum og annarsstaðar þar sem eftirspurn er eftir slíku menningarstarfi.
Fram komu hugmyndir um að tengja þetta við starf leikfélaga á svæðinu og heimsóknaþjónustu Rauða krossins. Einnig mætti virkja fólk með því að einstakir lesarar skori á annan til að taka næsta lestur.
Kortlagning Bókabæjanna
Bókabæirnir austanfjalls ná til þriggja sveitarfélaga, Árborgar, Ölfuss og Hveragerðis. Stofnaður hefur verið starfshópur sem mun vinna að því að skrásetja og kortleggja allt sem viðkemur skáldskap og bókmenntum á svæðinu. Slík skrásetning nær bæði til þess að setja niður hvar skáld hafa búið á svæðinu og sögusvið bókmennta sem gerast innan marka sveitarfélaganna. Með þessu mætti skapa nýja ferðamannaleið, bókahring sem hliðstæðu við svokallaða gullna hring í uppsveitum sýslunnar.
Bókmenntahátíðir í sveitarfélaginu
Bókabæirnir austanfjalls hafa sett stefnuna á að halda Barnabókahátíð á árinu og tengja hana aldarafmæli barnabókarhöfundarins Ármanns Kr. Einarssonar. Ármann var Árnesingur, fæddur og uppalinn í Neðradal í Biskupstungum og á stóran frændgarð í héraðinu. Þá eru einnig á þessu ári þau tímamót að þeir bræður Jón Oddur og Jón Bjarni eru fertugir og hefur verið haft samband við höfund þeirra, Guðrúnu Helgadóttur rithöfund og fyrrverandi þingforseta. Þá eiga fjölmargir barnabókahöfundar rætur á Suðurlandi, svo sem Ragnheiður Jónsdóttir sem var Stokkseyri og verðlaunahöfundurinn Guðmundur Brynjólfsson býr á Eyrarbakka. Stofnaður hefur verið vinnuhópur sjálfboðaliða um verkefnið.
Bókamarkaður á sumri
Bóksalinn Bjarni Harðarson kynnti á opnun fundi Bókabæjanna 17. janúar hugmyndir um rekstur bókamarkaða í Bókabæjunum á sumri komandi. Fjölmargir bókamarkaðir eru haldnir á höfuðborgarsvæðinu yfir vetrartímann en slík starfssemi liggur yfirleitt niðri yfir sumarið enda er þá sá tími að margir leita út á land. Því er talið tilvalið að efna til bókamarkaða austanfjalls er einkanlega horft til Frystihússins á Eyrarbakka nú á sumri komandi. Á fundinum sagði Hildur Hákonardóttir frá því að Byggðasafn Árnesinga ætti í sinni vörslu rauðan skáp sem þjónað hefði sem fyrsta bókaverslun héraðsins. Hana rak þáverandi brúarvörður Símon Jónsson trésmiður á Selfossi. Stofnaður hefur verið vinnuhópur sjálfboðaliða um rekstur bókamarkaða og er vinnan meðal annars fólgin í uppsetningu á hillum og að raða í þær bókum.
Bókabæjaferðir um allan heim
Bókabæirnir austanfjalls tengjast alþjóðasamtökum bókabæja, International Organisation of Book Towns. Slíka bæi er að finna víðsvegar um heiminn þó að flestir þeirra séu í Evrópu. Á opnum fundi Bókabæjanna austanfjalls kynntu þær Dorothee Lubecki og Heiðrún Dóra Eyvindardóttir hugmyndir að skipulögðum ferðum á bókahátíðir bókabæja. Þeir sem hafa áhuga á verkefninu geta skráð sig í vinnuhóp um verkefnið.