top of page

Hátíðardagskrá Konubókastofunnar

Nóg er um að vera í Bókabæjunum austanfjalls en Konubókastofan mun standa fyrir sérstakri hátíðardagskrá í Rauða húsinu á Eyrarbakka, sunnudaginn 22.mars. milli kl. 14-16. Hátíðardagskráin er haldin af tilefni þess að á árinu verða 100 ár síðan konur fengu almennan kosningarétt.

Margar mætar konur munu taka til máls og deila visku sinni og þekkingu. Meðal þeirra sem stíga á stokk eru Hildur Hákonardóttir og mun hún segja gestum frá hugleiðingum sínum um kvennabaráttuna. Auður Styrkársdóttir mun segja frá Kosningaréttinum 1915 og hátíðarhöldum 2015 , Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir mun segja gestum frá lífi og starfi Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Að endingu munu námsmeyjarnar Halldóra Íris Magnúsdóttir og Hallgerður Freyja Þorvaldsdóttir ræða hvernig það er að vera ung kona í íslensku samfélagi í dag.

Margrét Eir, hin ástsæla söng- og leikkona mun einnig koma fram og taka nokkur lög eins og henni einni er lagið.

Ókeypis verður inn og veitingar í boði, en á staðnum verða baukar þar sem gestir geta gefið í kaffisjóð. Allir velkomnir svo lengi sem húsrúm leyfir. Einnig er vert að taka fram að hljóðkerfi verður að staðnum þannig að enginn ætti að missa af skemmtilegri og áhugaverðri dagskrá.

Það er því um að gera að taka daginn frá og eiga notalega stund við hafið

Hátíðardagskráin er styrkt af 100 ára afmælisjóðnum og af sveitarfélaginu Árborg

Merkimiðar
No tags yet.
bottom of page